36 féllu fyrir eigin hendi í fyrra

Árið 2009 létust alls 2.002 einstaklingar, 969 konur og 1.033 karlar. Helstu dánarmein eru nú sem fyrr, sjúkdómar í blóðrásarkerfi og þá aðallega hjarta- og heilaæðasjúkdómar. Sjálfsvíg voru 36 á árinu og féllu 7 konur og 29 karlar fyrir eigin hendi. Það er svipaður fjöldi og undanfarin ár.

Hagstofa Íslands hefur nú birt dánarmein fyrir árið 2009. Gögnin byggja á dánarvottorðum allra einstaklinga sem létust á árinu 2009 og áttu lögheimili á Íslandi við andlát.

Árið 2009 létust alls 2.002 einstaklingar, 969 konur og 1.033 karlar. Ekki hafa orðið teljandi breytingar varðandi dánartíðni eftir helstu flokkum dánarmeina frá fyrra ári. Vegna fámennis á landinu geta þó tilviljanasveiflur milli ára verið nokkrar og ber því að taka samanburði um dánarmein milli einstakra ára varlega.

Helstu dánarmein eru nú sem fyrr, sjúkdómar í blóðrásarkerfi og þá aðallega hjarta- og heilaæðasjúkdómar. Á árinu 2009 létust 729 af sjúkdómum í blóðrásarkerfi, þar af 350 úr blóðþurrðarhjartasjúkdómum, 146 konur og 204 karlar. Alls létust 159 úr heilaæðasjúkdómum, 84 konur og 75 karlar. 

Krabbamein eru næst stærsti flokkur dánarmeina. Á árinu 2009 létust 562 af völdum illkynja æxla eða krabbameina, 252 konur og 310 karlar, sem er svipaður  fjöldi og undanfarin ár. Af þeim  létust 133 úr lungnakrabbameini, 69 konur og 64 karlar. Á árinu létust 56 vegna illkynja æxlis í eitil- og blóðmyndandi vef, 22 konur og 34 karlar. Þá létust 50 vegna krabbameins í ristli, 19 konur og 31 karl. Auk þess létust 36 konur úr illkynja æxli í brjósti og 53 karlar úr illkynja æxli í blöðruhálskirtli. Aðrar tegundir illkynja æxla voru fátíðari.

Þriðji stærsti flokkur dánarmeina eru sjúkdómar í öndunarfærum en úr þeim dóu 175 einstaklingar árið 2009, þar af 102 einstaklingar úr langvinnum neðri öndunarfærasjúkdómum, 58 konur og 44 karlar.

Dauðsföll vegna ytri orsaka eru fjórði stærsti flokkurinn. Á árinu 2009 létust 118 af völdum ytri orsaka, 39 konur og 79 karlar, það er svipuð tíðni og undanfarin ár. Af þeim voru dauðsföll sem tengdust óhöppum almennt, alls 65 og í þeim hópi voru 25 konur og 40 karlar. Alls létust 10 manns í umferðarslysum. Sjálfsvíg voru 36 á árinu og féllu 7 konur og 29 karlar fyrir eigin hendi. Það er svipaður fjöldi og undanfarin ár.

Árið 2009 voru skráð 140 ótímabær dauðsföll á Íslandi. Ótímabær dauðsföll eru andlát vegna tiltekinna dánarorsaka sem hefði mátt komast hjá með viðeigandi meðferð eða forvörnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert