Flýr ófrelsi í Vestur-Sahara

Norræna í höfn á Seyðisfirði.
Norræna í höfn á Seyðisfirði. mbl.is

Fjórtán eða fimmtán ára piltur frá Vestur-Sahara kom til Seyðisfjarðar með Norrænu í morgun og óskar eftir hæli hér á landi vegna ófrelsis í heimalandi sínu.

Norræna kom frá Esbjerg í Danmörku með viðkomu í Færeyjum. Drengurinn fór með öðrum farþegum í land en gaf sig fram við tollverði. Talið er að hann hafi falið sig á bílaþilfari.

Hann var yfirheyrður hjá lögreglunni á Egilsstöðum í gær og var sendur með flugi til Reykjavíkur í kvöld en verður vistaður á Fitjum í Reykjanesbæ þar sem hælisleitendur halda til. Mál hans hefur verið sent til Útlendingastofnunar og barnaverndaryfirvalda.

Drengurinn kveðst vera fæddur 1994 eða 1995. Lögreglan veit ekki með vissu hvaðan drengurinn er en hann nefnir frelsishreyfinguna Polisario sem berst fyrir sjálfstæði Vestur-Sahara frá Marokkó. Hann óskar eftir hæli hér á landi til að komast í frelsi, sem hann hafi ekki heima hjá sér, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert