550 hafa fengið greiðsluaðlögun

Um  550 einstaklingar höfðu um síðustu mánaðamót fengið samþykktan nauðasamning til greiðsluaðlögunar.  Umboðsmaður skuldara segir, að nýfallinn dómur Hæstaréttar um að nauðasamningur haggi ekki rétti lánardrottins til að ganga að tryggingu sem þriðji maður veitir, geti orðið veruleg. 

Í tilkynningu frá embætti umboðsmanns skuldara segir, að dómur Hæstaréttar  sýni verulega bresti í því úrræði sem greiðsluaðlögun eigi að vera og brýnt sé, að hafin verði endurskoðun á lagalegum úrræðum hið fyrsta til að ráða bót á þessu vandamáli.

Átti Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, fund í dag með Guðbjarti Hannessyni, félags- og tryggingamálaráðherra, þar sem farið var yfir  stöðu mála.

Umboðsmaður segir, að falli ábyrgð ekki niður samhliða samningi um greiðsluaðlögun geti ábyrgðarmaður átt endurkröfurétt á þann sem fór í greiðsluaðlögunina, sem aftur geti leitt til gjaldþrots skuldarans og þá sé greiðsluaðlögunin fyrir bí. Fái ábyrgðarmaður ekkert upp í kröfu sína, vegna slæmrar stöðu skuldara getu ábyrgðarmaðurinn jafnframt þurft að leita eftir greiðsluaðlögun eða jafnvel farið í gjaldþrot. 

Þá geti sú vitneskja, að greiðsluaðlögunarferlið leiði til þess að lán falli á ábyrgðarmenn sem í mörgum tilfellum séu nánir ættingjar eða vinir, geti fælt fólk í verulegum greiðsluerfiðleikum frá því að sækja um greiðsluaðlögun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert