Varar við kaldastríðsátökum á norðurskautinu

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Kristinn Ingvarsson

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir tímabært að átökum í anda kalda stríðsins verði hætt á norðurheimskautinu. Forsetinn er staddur á ráðstefnu um norðurheimskautið í Moskvu. Hann mun ávarpa ráðstefnuna á morgun.

„Þjóðir eiga ekki að beina kröfum um svæðisbundin yfirráð gegn hver öðrum heldur að taka þátt í samræðum,“ sagði Ólafur Ragnar í samtali við ITAR-TASS-fréttastofuna.

„Tímar kalda stríðsins, þegar spenna ríkti á norðurheimskautinu, eru liðnir,“ sagði forsetinn.

Ólafur Ragnar tekur þátt í tveggja daga ráðstefnu í Moskvu um málefni norðurheimskautsins. Á ráðstefnunni eru sendinefndir frá Kanada, Danmörku, Noregi, Rússlandi og Bandaríkjunum. Mjög skiptar skoðanir eru um hvernig eigi að skipta yfirráðum yfir hafinu við norðurheimskautið.

Jarðfræðistofnun Bandaríkjanna telur að 30% af öllum gaslindum í heiminum séu að finna undir norðurheimskautinu.

Vladímír Putín, forsætisráðherra Rússlands, mun ávarpa ráðstefnuna á morgun. Það mun Ólafur Ragnar líka gera.

Áformað er að Ólafur Ragnar eigi viðræður við Dmitrí Medvedev, forseta Rússlands, í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert