Vísað til þingmannanefndar

Þingmenn á Alþingi.
Þingmenn á Alþingi. mbl.is/Ernir

Alþingi samþykkti í dag, að tvær þingsályktunartillögur um málshöfðun á hendur fyrrverandi ráðherrum skyldi vísað til þingmannanefndarinnar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

38 þingmenn Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar vildu vísa tillögunum til þingmannanefndarinnar en 16 þingmenn Sjálfstæðisflokksins vildu að allsherjarnefnd þingsins fengi málið til meðferðar. Tveir þingmenn sátu hjá, Samfylkingarþingmennirnir Kristján L. Möller og Róbert Marshall.

Tvær tillögur lágu fyrir, önnur frá Atla Gíslasyni, formanni þingmannanefndarinnar, um að tillögurnar fari til meðferðar í þeirri nefnd eftir fyrri umræðu, sem lauk í gærkvöldi. Hin var frá Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingmanni, Sjálfstæðisflokksins, um að tillögurnar yrðu sendar til allsherjarnefndar.

Í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar urðu talsverðar umræður um tillögurnar. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, sagði að ef tillögunni yrði vísað til allsherjarnefndar jafngilti það vantrausti á störf þingmannanefndar. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins mótmæltu því og sögðu eðlilegt að málinu yrði vísað til einnar af fastanefndum þingsins. 

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að um væri að ræða eina af stærstu ákvörðunum þingsögunnar, hvort höfða eigi mál á hendur fyrrum ráðherrum. Fyrir lægi, að  í þingmannanefndarinnar séu allir flutningsmenn tillagnanna og leinnig liggi fyrir  hver hugur þeirra sé til athugasemdanna, sem hafi komið fram í umræðu um tillögunarn. „Við hverju búast menn þegar þessar athugasemdir koma til meðferðar í nefndinni?" spurði Bjarni.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagðist treysta því, að þingmannanefndin leiti álits og umsagnar allsherjarnefndar þingsins í því ferli.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert