Ýtir upp verðvísitölunni

„Við viljum ekki ganga svo langt að kalla það verðbólguskot en fyrirhugaðar matvöruverðshækkanir eru, að frátöldum hækkunum á orkuverði, það sem við sjáum hvað helst ýta upp vísitölu neysluverðs það sem eftir lifir árs,“ segir Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Íslandsbanka, um útlitið framundan.

„Þessi matvöruverðshækkun kemur í kjölfar hækkunar á verðskrá Orkuveitu Reykjavíkur og annarra raforkufyrirtækja.“

Aðspurður um forsendur þessarar greiningar bendir Jón Bjarki á fyrirhugaða hækkun hjá Myllunni og líklega hækkun í verði á lambakjöti vegna mikillar eftirspurnar og takmarkaðs framboðs erlendis.

Eins og komið hefur fram hyggst Myllan hækka vörur sínar um að jafnaði 8,1% um næstu mánaðamót vegna verðhækkunnar á hrávörum, einkum hveiti, á heimsmarkaði.

Keðjuverkandi áhrif

Jón Bjarki telur aðspurður að hækkunin kunni að hafa keðjuverkandi áhrif með því að leiða til verðhækkunar hjá öðrum bakaríum.

„Við spáum því að neysluverðsvísitalan eigi eftir að hækka um 2% til áramóta, að september meðtöldum. Þetta er kannski stærsti einstaki þátturinn að gjaldskrárhækkunum slepptum í þeirri spá. Þannig að þetta hefur vissulega áhrif og hægir á hjöðnun verðbólgunnar.

Það eru hins vegar stórir mánuðir að detta út í verðbólgumælingunni ef litið er til 12 mánaða tímabils. Verðbólgan mun því engu að síður koma til með að minnka. Við gerum ráð fyrir að verðbólgan verði um 3,4% um áramótin, eða 0,2% meiri en að meðaltali á næsta ári,“ segir Jón Bjarki.
Jón Bjarki Bentsson.
Jón Bjarki Bentsson. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert