Hefði farið gróflega út fyrir valdsviðið

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir í greinargerð sem hún hefur sent þingmönnum vegna þingsályktunartillögu um málshöfðun á hendur henni fyrir landsdómi, að hefði hún beitt sér fyrir aðgerðum til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins eða flytja Icesave-reikninga yfir í dótturfélög, hefði hún farið gróflega út fyrir valdsvið sitt sem utanríkisráðherra. 

„Ég tel raunar að ef ég hefði tekið upp á slíkum aðgerðum, og þannig farið gróflega út fyrir mitt valdsvið sem utanríkisráðherra og inn á valdsvið annarra fagráðherra, þá væri ég mun líklegri en nú til að geta talist hafa brotið gegn lögum um ráðherraábyrgð," segir Ingibjörg Sólrún í greinargerðinni. 

Í þingsályktunartillögu meirihluta þingmannanefndar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, er meðal annars lagt til að höfðað verði mál á hendur Ingibjörgu Sólrúnu fyrir að hafa vanrækt að beita sér fyrir virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi. Einnig fyrir að hafa ekki fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave- reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.

Ingibjörg Sólrún segir í greinargerðinni, að pólitísk ábyrgð sé vissulega til staðar og hún telji óumdeilt, að hún hafi axlað þá ábyrgð, m.a. með því að stíga út af vettvangi stjórnmálanna. 

Ótrúleg rök

Ingibjörg Sólrún gagnrýnir í greinargerðinni þingsályktunartillögu Magnúsar Orra Schram og Oddnýjar Harðardóttur, fulltrúa Samfylkingarinnar í þingmannanefndinni. Þau leggja til að Ingibjörg Sólrún verði ákærð en ekki Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra á þeirri forsendu, að gögnum og upplýsingum um stöðu fjármálakerfisins hafi verið leynt fyrir honum.

Ingibjörg Sólrún segist ekki gera athugasemdir við að þingmennirnir vilji ekki ákæra Björgvin en þegar hún standi andspænis því, að málsvörn hans og fulltrúa Samfylkingarinnar í þingmannanefndinni, byggist á að fella sök á hana, þá hljóti hún að grípa til varna.

Segist Ingibjörg Sólrún krefjast þess, að gerð verði grein fyrir hvaða upplýsingar eða gögn það eru, sem hún á að hafa haldið frá Björgvin. Þá segir að hún að ótrúlegustu rökin sé að finna í þessari setningu: „Útilokun viðskiptaráðherrans náði hámarki þegar utanríkisráðherra ákvað að honum yrðu ekki kynntar aðgerðir ríkisvaldsins vegna lánabeiðni Glitnis banka sunnudaginn 28. september 2008."

Segir Ingibjörg Sólrún að hér sé um að ræða mjög alvarlega fullyrðingu og hún hljóti að gera þá kröfu til fulltrúa Samfylkingarinnar í þingmannanefndinni að þau upplýsi hvað þeir hafi fyrir sér í þessu.

„Þessa helgi mun hafa verið fundað stíft, fyrst í Seðlabankanum og síðar í forsætis- og fjármálaráðuneytinu, um málefni Glitnis án þátttöku ráðherra Samfylkingarinnar.  Það var ekki mín ákvörðun að halda viðskiptaráðherra eða Samfylkingunni utan við þá fundi. Ég var í (New York) að búa mig undir heilaskurðaðgerð sem framkvæmd var mánudagsmorguninn 29. september. Þegar ég frétti fyrst frá utanaðkomandi aðila eftir hádegi á sunnudegi af fundarhöldunum í forsætisráðuneytinu hafði ég samband við forsætisráðherra og sendi Össur Skarphéðinsson staðgengil minn til að kanna stöðuna. Það voru efalaust mistök af minni hálfu en nokkuð langt seilst að telja að þar hafi verið um refsivert brot að ræða," segir Ingibjörg Sólrún. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert