Sagði þingmönnum frá fundi

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kemur til fundar við þingmenn Samfylkingarinnar í …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kemur til fundar við þingmenn Samfylkingarinnar í síðustu viku. mbl.is/Kristinn

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir í greinargerð sem hún hefur sent þingmönnum, að hún hafi gert öllum þingmönnum Samfylkingarinnar grein fyrir því, að hún hefði setið fund með ráðherrum og seðlabankastjóra 7. febrúar 2008 þar sem rætt var um íslensku bankana.

Þessi fundur er meðal annars nefndur í þingsályktunartillögum, sem liggja fyrir Alþingi um málshöfðun á hendur fyrrverandi ráðherrum. Segir þar að þau Ingibjörg Sólrún og  Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, hafi látið farast fyrir að halda ráðherrafundi um ástand fjármálakerfisins þótt sérstök ástæða hafi verið til þess, einkum eftir fund þeirra tveggja og Árna M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra og Davíðs Oddssonar, þáverandi formanns stjórnar Seðlabankans 7. febrúar 2008.

Í greinargerðinni, sem Ingibjörg Sólrún hefur sent þingmönnum, segir að hún hafi sem oddviti Samfylkingarinnar beitt sér í kjölfar fundarins 7. febrúar. Á tveimur þingflokksfundum hafi hún gert viðskiptaráðherra og öðrum þingmönnum flokksins glögga grein fyrir því að hún hefði setið þennan fund og þar hafi verið rætt um málefni íslenska fjármálamarkaðarins og stöðu íslensku bankanna. Hún hafi hins vegar ekki getað gefið þingmönnum Samfylkingarinnar nákvæmar upplýsingar um stöðu mála, hvorki áætlanir né tölulegar upplýsingar, enda hafi hún ekki búið yfir slíku.

„Í kjölfar fundarins ræddum við að auki saman um stöðuna almennt þ.e. forsætisráðherra, viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra og ákváðum að halda fund með fulltrúum fjármálafyrirtækja í Ráðherrabústaðnum þar sem við vorum öll viðstödd. Viðskiptaráðherra var því fullkunnugt um fundinn með seðlabankastjóra 7. febrúar og gerði hvorki athugasemdir við mig né - eftir því sem ég best veit - við forsætisráðherra, að hafa ekki verið boðaður til hans. Sömu sögu er að segja um aðra ráðherra Samfylkingarinnar og reyndar þingflokkinn allan," segir Ingibjörg Sólrún. 

Í bréfi sínu til þingmanna segist Ingibjörg Sólrún vona að lestur greinargerðarinnar muni auðvelda þeim að taka vel ígrundaða og sjálfstæða ákvörðun um hvort þeir telji, að meiri líkur séu en minni á að hún yrði sakfelld komi málið fyrir landsdóm. 

Segist hún hafa kynnt efni greinargerðarinnar fyrir þeim þremur fyrrverandi ráðherrum öðrum, sem meirihluti þingmannanefndar leggur jafnframt til að verði ákærðir.

Þá segir Ingibjörg Sólrún, að henni sé enn ekki ljóst hvaða upplýsingar það voru á fundinum, sem hún átti að bregðast við. Fyrir liggi, að Seðlabankinn eða seðlabankastjóri hafi ekki lagt fram nein gögn, hvorki á fundinum sjálfum né í kjölfar hans. 

„Til marks um málatilbúnaðinn er að í umræðum um málið á Alþingi hefur Atli Gíslason formaður þingmannanefndarinnar fullyrt í þrígang að ráðherrar hafi fengið upplýsingar um það á þessum fundi að bankarnir ættu níu mánuði ólifaða. Þetta er rangt og styðst hvorki við vitnisburð ráðherranna sem sátu fundinn né minnispunkta frá fundinum. Því hlýt ég að spyrja á hvaða gögnum þessi fullyrðing formanns þingmannanefndarinnar byggist," segir Ingibjörg Sólrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert