Tillögur um hærri skatta

Starfshópur, sem starfað hefur á vegum fjármálaráðherra til að fjalla um breytingar og umbætur á skattkerfinu, leggur til að fjármagnstekjuskattur og tekjuskattur lögaðila hækki. Sömuleiðis auðlegðarskattur, erfðafjárskattur, vörugjöld á áfengi og tóbaki, kolefnisgjald á eldsneyti og að tekinn verði upp skattur á fjármálaþjónustu.

Þetta kemur fram í áfangaskýrslu starfshópsins, sem fjármálaráðuneytið hefur birt. Viðmið starfshópsins við mótun hugmynda að skattabreytingum er að áform ríkisstjórnarinnar um 11 milljarða króna tekjuöflun á árinu 2011 náist, þó þannig að þær breytingar falli jafnframt að meginsjónarmiðum hans um breytingar á skattkerfinu þegar til lengri tíma er litið.

Starfshópurinn leggur til, að skatthlutfalli fjármagnstekjuskatts og tekjuskatts lögaðila hækki úr 18% í 20% en hvert prósent, sem þessir skattar hækka um, skila ríkinu um milljarði króna í tekjur. Segir starfshópurinn, að með þeim breytingum yrði samanlagður skattur á hagnað félags og arð eiganda samtals 36% sem sé enn nokkru lægra en skattlagning á launatekjur og lægra en sambærilegar tölur fyrir önnur lönd.

Þá verði fjármagnstekjuskattur og skattur á hagnað lögaðila enn lægri en í flestum öðrum löndum. Skattur á arð á Norðurlöndunum sé frá 28% (Finnland, Noregur) upp í 43% (Danmörk) og meðaltalið í OECD‐ ríkjunum tæp 30% en yrði miðað við þessar hugmyndir 20%.

Auðlegðarskattur, 1,25% skattur á eignir einstaklinga yfir 90 milljónir og hjóna yfir 120 milljónir, var tekinn upp á síðasta ári. Starfshópurinn telur mögulegt að hækka núverandi skatthlutfall auðlegðarskattsins eitthvað eða lækka fríeignamarkið. Hækki auðlegðarskattur í 1,5% myndi það skila ríkinu um 800 milljónum króna í tekur.

Segir hópurinn, að bent hafi verið á að hækkun auðlegðarskatts kynni að leiða til þessa að efnafólk kæmi fé sínu fyrir erlendis eða flytti jafnvel úr landi. Þá þurfi að hafa í huga að vistun eigna í öðrum löndum sé engin trygging fyrir lægri skattgreiðslum, enda skattar á fjármagnstekjur víðast hvar hærri en á Íslandi.

Þá segir starfshópurinn, að erfðafjárskattur sé mjög lágur hér á landi í alþjóðlegum samanburði, eða 5%, að undanskildum maka eða sambúðaraðila, sem sé undanþeginn skattinum. Í ljósi þess að almennt sé litið á erfðafjárskatt sem ígildi tekjuskattlagningar geti of lágt skatthlutfall erfðafjárskatts ýtt undir skattasniðgöngu. Hækkun skatthlutfallsins úr 5% í 10% myndi draga úr þeim mun sem nú sé á milli tekjuskattlagningar og erfðafjárskatts en á móti væri eðlilegt að endurskoða skattfrelsismörk skattsins sem nú eru 1 milljón á hvert dánarbú. 

Fram kemur í skýrslunni, að hver prósenta, sem skatturinn hækkar um, skilar ríkissjóði nálægt 200 milljónum krónum.

Áfangaskýrsla starfshópsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert