ESB hleypi Íslendingum ekki inn í lögsöguna

Fulltrúar skoskra sjómanna hvetja Evrópusambandið til að taka harða afstöðu gagnvart Íslendingum og Færeyingum í viðræðum um skiptingu makrílkvóta. Ekki komi til greina, að hleypa skipum þjóðanna tveggja inn í fiskveiðilögsögu Evrópusambandsins til að veiða makríl.

Vefurinn Fishnewseu.com hefur eftir Iain MacSween, framkvæmdastjóra skoska sjómannasambandsins, að svo virðist sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins liti á það sem möguleika lausn í makríldeilunni að semja um gagnkvæmar veiðiheimildir. 

Að mati úthafsveiðisjómanna í Skotlandi og annarstaðar í Evrópusambandinu komi þetta hins vegar ekki til greina þótt framkvæmdastjórnin hafi á kynningarfundi vísað til hefðar um gagnkvæman aðgang strandþjóða.  

„Evrópski úthafsveiðiflotinn er þeirrar skoðunar að skip frá Íslandi og Færeyjum eigi ekki að fá aðgang að lögsögu Evrópusambandsins til að veiða makríl. Þetta er grundvallaratriði og það er mikilvægt að því sé komið á framfæri," hefur vefurinn eftir MacSween. 

Hann sagðist fallast á, að Færeyingar og Evrópusambandið hafi í einhverjum mæli skipst á veiðiheimildum en Íslendingar myndu aldrei leyfa skipum frá Evrópusambandinu inn í sína lögsögu, hver sem niðurstaðan yrði í makríldeilunni. Því sé algerlega óviðunandi, að það verði hluti af samningum að Íslendingar fái að veiða makríl í lögsögu ESB.  Það sama eigi raunar að gilda um Færeyinga.  

Skoskir sjómenn eru sagðir ætla að þrýsta á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að grípa til harðra aðgerða gagnvart Íslendingum og Færeyingum ef ekki fæst viðunandi niðurstaða um skiptingu makrílkvótans á fundi í október.

Fulltrúar Íslendinga, Færeyinga, Noregs og Evrópusambandsins munu koma saman á fundi í Lundúnum 12. október til að fjalla um makríl. Hvetja skoskir og evrópskir makrílsjómenn Evrópusambandið til að gefa ekkert eftir í þeim viðræðum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert