Áfellisdómur yfir stjórnvöldum og stjórnmálamönnum

Þingmannanefndin sem fjallaði um rannsóknarskýrslu Alþingis..
Þingmannanefndin sem fjallaði um rannsóknarskýrslu Alþingis..

Þingmannanefnd, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, vísar til þess í nefndaráliti um breytingartillögur við þingsályktunartillögu nefndarinnar, að í þeirri tillögu sé lagt til, að Alþingi álykti að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.

Í umræðum um skýrslu nefndarinnar og þingsályktunartillögur um málshöfðun gegn ráðherrum lýstu nokkrir þingmenn þeirri skoðun, að Alþingi eigi að samþykkja sérstaka ályktun þar sem kveðið yrði á um ábyrgð einstakra ráðherra, ekki aðeins frá 2007 heldur líka á tímabilinu 2002-2006 þegar þeir ráðherrar voru á vettvangi sem báru ábyrgð m.a. á einkavæðingu bankanna. 

Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, lýsti meðal annars þessari skoðun og einnig Ólína Þorvarðardóttir, flokkssystir hans. Sagðist Ólína telja að Alþingi verði að samþykkja ályktun þar sem þeir einstaklingar, sem allir viti að bera raunverulega ábyrgð í þessu máli, séu víttir og átaldir þunglega. Leggi þingmannanefndin ekki slíka tillögðu sagðist Ólína sjálf myndi bera hana fram.

Fram kemur í nefndaráliti þingmannanefndarinnar, sem lagt var fram á Alþingi í gær, að  Ólína  kom á fund nefndarinnar og ræddi um ábyrgð ráðherra og embættismanna og hagstjórnarleg mistök sem gerð voru, sem og sölu og einkavæðingu bankanna.

„Af því tilefni vill nefndin taka fram að m.a. á bls. 24 og 30 í skýrslu nefndarinnar er tekin skýr afstaða til þeirra atriða sem þingmaðurinn gerði að umtalsefni. Auk þess leggur þingmannanefndin til að Alþingi álykti að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu," segir í álitinu.

Nefndarálit þingmannanefndarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert