48,8% ætla ekki að kjósa, skila auðu eða eru óvissir

mbl.is/Kristinn

Alls tóku 51,2% þeirra  800 sem tóku þátt í nýlegri skoðanakönnun Fréttablaðsins  afstöðu þegar spurt var hvaða flokk viðkomandi myndi kjósa yrði efnt til alþingis- kosninga nú. Tæplega helmingur þátttakenda, 48,8 prósent, sagðist ýmist ætla að skila auðu, sleppa því að kjósa, eða var óviss hvaða flokkur myndi fá atkvæði sitt ef kosið yrði nú.

Þegar aðeins er horft til þeirra sem afstöðu tóku til flokka er Hreyfingin það framboð sem bætir við sig mestu fylgi. Flokkurinn mælist nú með stuðning 5,6 prósenta kjósenda, en mældist með 0,3 prósent í síðustu könnun Fréttablaðsins, sem gerð var 18. mars síðastliðinn. Þetta fylgi myndi skila Hreyfingunni þremur þingsætum, sama fjölda og hún er með í dag.

Stuðningur við Vinstri græn eykst einnig milli kannana. Flokkurinn mælist með stuðning 25,6 prósenta þeirra sem afstöðu tóku, en var með 20,6 prósent í síðustu könnun Fréttablaðsins. Flokkurinn fengi samkvæmt þessu sautján þingmenn, en er nú með fimmtán.

Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærsti flokkurinn. Af þeim sem afstöðu tóku sögðust 35,6 prósent styðja flokkinn. Það er 4,7 prósentustigum lægra hlutfall en í síðustu könnun. Flokkurinn fengi miðað við það 24 þingmenn, en er með sextán í dag.

Stuðningur við Samfylkinguna stendur í stað milli kannana, 23,2 prósent sögðust myndu kjósa flokkinn í dag. Það myndi skila Samfylkingunni fimmtán þingmönnum, þeir eru tuttugu í dag.

Stuðningur við Framsóknarflokkinn dalar verulega. Flokkurinn fengi 7,3 prósent atkvæða yrði gengið til kosninga nú, en fékk 13,3 prósent í síðustu könnun. Flokkurinn fengi fjögur þingsæti miðað við þessa niðurstöðu, en er með níu í dag.

Alls sögðust 2,7 prósent styðja Borgarahreyfinguna, samkvæmt frétt Fréttablaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert