Tapaði 16,2 milljörðum króna

Þorbergur Steinn átelur fjárfestingarstefnu sjóðsins örlagaárið 2008.
Þorbergur Steinn átelur fjárfestingarstefnu sjóðsins örlagaárið 2008. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Lífeyrissjóður verkfræðinga tapaði 16,2 milljörðum króna í bankahruninu eða rúmum þriðjungi eignar sinnar. Mikil reiði er á meðal verkfræðinga vegna tapsins og hefur stjórn sjóðsins látið af störfum eftir að vantrauststillaga á hana var samþykkt. Tapið verður rætt á aukaaðalfundi sjóðsins í dag.

Fjallað er um hin miklu umskipti í rekstri sjóðsins í grein Þorbergs Steins Leifssonar, Hugleiðingar um stöðu Lífeyrissjóðs verkfræðinga og aðgerðir stjórnar á árunum 2007 og 2008, en þar segir að afskriftir vegna erlendra eigna séu teknar með í reikninginn.

Reiknað með hækkun á neysluverði

Miðað við 3,5% ávöxtun hafi eigin fé sjóðsins átt að standa í 42.554 milljónum króna í árslok 2009 en hafi samkvæmt ársreikningi verið komin niður í 28.281 milljónir króna. Er hér einnig tekið tillit til 27% hækkunar á neysluverði á tímabilinu frá 2008 til 2009.

„Tap sjóðsins er því rúmir 14 milljarðar eða þriðjungur sjóðsins. Þetta er þó ekki allt. Í lok árs 2009 var um 27% af eignum sjóðsins í erlendum gjaldmiðlum og þá var gengi evru 180 kr sem er ofmat. Ef erlenda eignin er metin miðað við gengi evru 140 kr og bætt við þeim 279 milljónum sem þegar hefur verið bætt á afskriftarlistann (sbr sjóðfélagafund) er eign sjóðsins 2 milljörðum lægri eða aðeins 26,2 milljarðar og tapið er þá 16,2 milljarðar eða 38%.“

Raunávöxtun neikvæð um 31,3% 2008 

Þorbergur Steinn bendir á hrun í raunávöxtun sjóðsins hrunárið 2008.

„Þessir reikningar eru í samræmi við það sem kemur fram í ársskýrslum sjóðsins en þar er gefið upp 31,3 % neikvæð raunávöxtun 2008 og 0,2% neikvæð raunávöxtun 2009. Þá á einungis eftir að bæta við 3,5% ávöxtun hvort ár sem reiknað er með í reiknigrunni sjóðsins og næst sjálfkrafa og nær áhættulaust með sjóðfélagalánum og bréfum ríkis, íbúðalánasjóðs og sveitafélaga.

Þá kom einnig fram á síðasta aðalfundi að þó að réttindi allra sjóðfélaga hafi verið skert á síðasta ári um 10% vantar enn 30% uppá að sjóðurinn eigi fyrir áföllnum skuldbindingum, en sjóðurinn var nánast í jafnvægi í árslok 2007 (-3,7%). Skerðing réttinda þarf því að vera samtals um 40% til að jafna þetta tap út.“

Fær 140.000 krónur minna á mánuði

Hann segir almenna sjóðsfélaga hafa tapað miklu.

„Þetta eru gífurlegar upphæðir fyrir sjóðfélaga sem búnir eru að borga lengi í sjóðinn. Sjálfur er ég t.d. búinn að borga í sjóðinn í tæp 30 ár af miðlungs verkfræðingslaunum og hefði verið búinn að ávinna mér um 350.000 í lífeyri (á verðlagi í dag með 3,5 % ávöxtun til 70 ára aldurs, án frekari greiðslna) ef engin skerðing hefði komið til.

Vegna 40% skerðingar mun ég fá um 140 þúsund lægri lífeyri í hverjum einasta mánuði, eða 1,7 milljónir á ári. Ef ég næ svipuðum aldri og forfeður mínir þýðir þetta 34 milljón króna lægri lífeyrisgreiðslur til mín. Hjá mörgum sem borgað hafa lengur eða af hærri launum er tapið enn meira.“

Tapaði mest allra lífeyrissjóða

Þorbergur Steinn ber saman tap sjóðsins og annarra lífeyrissjóða.

„Ég hef tekið saman tap 26 stærstu lífeyrissjóðanna samanlagt yfir árin 2008 og 2009 samkvæmt skýrslum FME og eru niðurstöður á mynd 1. Þar kemur fram að tap LV [Lífeyrissjóðs verkfræðinga] er meira en nokkurs annars sjóðs eða -31,7%. Vegið meðaltal fyrir alla sjóðina er um 21,8% tap þannig að tap lífsverk er um helmingi meira en annara sjóða að meðaltali.

Margir sjóðir töpuðu sáralitlu árið 2008 t.d. Lífeyrissjóður bankamanna, enda gáfu erlendar eignir afbragðsávöxtun þetta ár. Við tapið [...] ætti síðan að bæta 3,5% ávöxtun hvert ár eða um 7% samtals vegna þess að það er innbyggt í reiknigrundvöll sjóðanna. Þannig kemur út hátt í 40% tap fyrir LV. Af um 16,2 milljarða tapi LV má því segja að um 4 til 5 milljarðar séu umfram það sem aðrir sjóðir töpuðu.“

Seldu helminginn á nokkrum dögum

Þorbergur Steinn bendir á að fyrrverandi stjórn sjóðsins hafi selt helming erlendra hlutabréfa sjóðsins á nokkrum dögum í mars 2008 er krónan byrjaði að falla, ákvörðun sem hann krefst skýringa á.

„Krónan byrjaði að falla 7. mars og féll mest 17. og 18. mars, síðan koma páskar þannig að það voru bara 6 virkir dagar eftir til mánaðamóta. Á þessum tíma tekst stjórninni að selja helming af öllum erlendum hlutabréfum sjóðsins, sem hefur tekið áratugi að kaupa,“ skrifar Þorbergur Steinn en alls voru seld bréf fyrir 3.612 milljónir króna, að því er fram kemur í tilvitnun í greinargerð stjórnarinnar.

Töpuðu milljörðum á sölunni

Þorbergur Steinn telur stjórnina hafa tapað milljörðum á þessari ákvörðun.

„Ef stjórn LV [Lífeyrissjóðs verkfræðinga] hefði leyft þessum hlutabréfum að vera í friði hefðu þessir 3,6 milljarðar hækkað verulega vegna gengislækkunnar krónunnar í stað þess að verða að engu, eftir að hafa verið breytt í íslensk  bankabréf. Þessi eina ákvörðun stjórnarinnar skýrir því sennilega um fjórðung af heildartapi sjóðsins.“

Leiðrétting klukkan 10.14: Þorbergur Steinn var í upphafi sagður Loftsson. Hann heitir réttu nafni Þorbergur Steinn Leifsson. Beðist er velvirðingar á mistökunum.

Þorbergur Steinn færir fyrir því rök að stjórn sjóðsins hafi …
Þorbergur Steinn færir fyrir því rök að stjórn sjóðsins hafi gert reginmistök með því að selja erlend hlutabréf í stórum stíl á röngum tíma. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert