Yfir 70% vilja breytingu á úthlutun veiðiheimilda

mbl.is

Meirihluti eða 71% svarenda í nýrri könnun MMR segist hlynntur því að stjórnvöld afturkalli fiskveiðiheimildir og úthluti þeim aftur með breyttum reglum. Mikill munur á afstöðu svarenda eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Stuðningur við afturköllun hefur aukist á milli kannana.

Í könnun MMR þar sem spurt var um afstöðu fólks til fiskveiðiheimilda sögðust 70,9% svarenda vera frekar eða mjög hlynntir því að stjórnvöld afturkalli með einum eða öðrum hætti gildandi fiskveiðiheimildir og úthluti þeim að nýju með breyttum reglum. Aftur á móti voru 18,8% andvígir slíkum hugmyndum og 10,3% sögðust hvorki vera hlynnt né andvíg hugmyndinni.

Þetta er nokkur breyting frá könnun MMR í febrúar 2009 þegar 61% svarenda sögðust fylgjandi afturköllun og endurúthlutun fiskveiðiheimilda, samkvæmt tilkynningu.

Eins og í fyrri mælingum kom í ljós nokkur munur á afstöðu ólíkra hópa til þess að stjórnvöld afturkölluðu með einum eða öðrum hætti gildandi fiskveiðiheimildir og úthluti þeim að nýju með breyttum reglum.

Til dæmis sögðust 82% þeirra sem eru fimmtugir og eldri vera hlynntir hugmyndinni samanborið við 71% í aldurshópnum 30-49 ára og 54% í aldurshópnum 18-29 ára. Þó ber að líta til þess að í öllum aldurshópunum voru þeir sem sögðust hlynntir hugmyndinni mun fleiri en þeir sem sögðust henni andvígir, samkvæmt tilkynningu.

73,7% þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu sögðust fylgjandi því að yfirvöld endurskoði úthlutun fiskveiðiheimilda borið saman við 66,4% þeirra sem búa úti á landi. Þá sögðust 16,% íbúa höfuðborgarsvæðisins vera andvígir hugmyndinni um endurúthlutun fiskveiðiheimilda borið saman við 23,3% íbúa landsbyggðarinnar.

93,3% stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar hlynntir breytingu

Af þeim sem styðja núverandi ríkisstjórn eru 93,3% sem sögðust hlynntir því að að stjórnvöld afturkalli með einum eða öðrum hætti gildandi fiskveiðiheimildir og úthluti þeim að nýju með breyttum reglum. Meðal þeirra sem segjast ekki styðja ríkisstjórnina voru 51,9% sem sögðust fylgjandi endurúthlutun fiskveiðiheimilda en 35% þeirra voru því andvígir.

Verulegur munur var á afstöðu svarenda eftir stuðningi þeirra við stjórnmálaflokka (þ.e. hvaða flokka þeir myndu kjósa ef gengið væri til kosninga nú).

Þannig sögðust 38,3% sjálfstæðismanna hlynntir endurúthlutun fiskveiðiheimilda en 43,4% þeirra sögðust andvígir. 59,1% framsóknarmanna sögðust hlynntir endurúthlutun fiskveiðiheimilda en 27,3% þeirra sögðust andvígir. 93% stuðningsfólks Samfylkingarinnar kvaðst fylgjandi endurúthlutun fiskveiðiheimilda en 2,3% þess sagðist andvígt. Þá voru 95,9% Vinstri grænna hlynntir því að stjórnvöld endurskoði úthlutun fiskveiðiheimilda en 1,1% voru því andvígir. Meðal þeirra sem sögðust kjósa aðra flokka en ofangreinda voru 87,2% sem kváðust hlynntir endurúthlutun fiskveiðiheimilda en 10,5% kváðust andvígir.

Sjá nánar hér 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert