Engin flokkslína Samfylkingar

Mörður Árnason þingmaður Samfylkingarinnar.
Mörður Árnason þingmaður Samfylkingarinnar. Ernir Eyjólfsson

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í kvöldfréttum Sjónvarpsins að Samfylkingin hafi ekki kosið eftir flokkslínum í atkvæðagreiðslunni um ákærur á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum á Alþingi í dag.

Þegar kom að því að greiða atkvæði um hvort ákæra ætti Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, greiddu fjórir þingmenn Samfylkingarinnar, sem samþykktu málshöfðun gegn Geir, atkvæði á móti. Þetta voru Helgi Hjörvar, Ólína Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Skúli Helgason.

Þegar atkvæði voru greidd um hvort ákæra ætti Árna M. Mathiesen greiddu þær Ólína og Sigríður Ingibjörg atkvæði með tillögunni en Helgi og Skúli greiddu atkvæði gegn.  

Loks voru greidd atkvæði um hvort höfða ætti mál gegn Björgvin G. Sigurðssyni.  þrír þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði með málshöfðun, Ólína Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir en Mörður Árnason sat hjá.


„Það var nú einmitt ekki. Við ákváðum að það væri engin flokkslína,“ sagði Mörður í samtali við Sjónvarpið og einnig að ákveðið hafi verið að hver fengi að gera upp hug sinn sjálfur. Mörður benti hins vegar á Sjálfstæðisflokk, Hreyfinguna og Vinstri græna þar sem allir þingmenn greiddu atkvæði eins og sagði að ef einhvers staðar hefði verið flokkslína þá væri það þar. Hann tók þó einnig fram að með því væri hann ekki að segja að flokkarnir hefðu greitt atkvæði eftir flokkslínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert