Bolungarvíkurgöng lokuðust í gær

Úr Bolungarvíkurgöngunum.
Úr Bolungarvíkurgöngunum. Helgi Bjarnason

Bolungarvíkurgöng, sem opnuð voru um helgina, lokuðust a.m.k. í tvígang í gær, þegar kviknaði á lokunarljósum og slár fóru niður. Skoðunarstofa fór yfir rafmagnsbúnaðinn í göngunum síðdegis í gær.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni virðist sem einn NO nemi, sem mælir magn köfnunarefnisoxíði, sé bilaður eða gallaður. Neminn sendi þær upplýsingar að of mikil mengun væri í göngunum og því ætti að loka þeim.

Jafnframt voru sendar upplýsingar til blásara um að fara í gang og loftræsa göngin, en vegna einhvers konar vanstillingar sló út rafmagni. „Þetta eru vonandi byrjunarörðugleikar, en í svona sjálfvirku viðvörunarkerfi er alltaf hætta á fölskum boðum. Vegfarendur verða samt að taka boðin alvarlega. Vegagerðarmenn munu reyna að leiðrétta slíkt eins fljótt og mögulegt er,“ segir Gísli Eiríksson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert