Jón Ásgeir skorar á Steinunni

Hannes Smárason og Jón Ásgeir Jóhannesson hafa báðir verið lögsóttir …
Hannes Smárason og Jón Ásgeir Jóhannesson hafa báðir verið lögsóttir af slitastjórn Glitnis í New York mbl.is/Ómar Óskarsson

Jón Ásgeir Jóhannesson, kaupsýslumaður, skorar á Steinunni Guðbjartsdóttur, formann slitastjórnar Glitnis, að tilgreina þá peninga og eignir sem slitastjórnin og Kroll hafi fundið. Hann segir að málaferli slitastjórnarinnar hafi þegar kostað 1.850 milljónir króna. Þetta kemur fram í aðsendri grein sem Jón Ásgeir ritar á Pressuna í dag.

„Ég skora á Steinunni Guðbjartsdóttur, formann slitastjórnar Glitnis, að tilgreina þá peninga og þær eignir sem hún og Kroll hafa fundið. Hvar eru þessir fjármunir? Mér er ekki kunnugt um þessar eignir en þætti vænt um ef Steinunn og starfsmenn Kroll hafa fundið peninga og eignir sem mér tilheyra og ekki hefur verið gerð grein fyrir áður. Ég veit að það mun reynast erfitt því þessi verðmæti eru ekki til.

Slitastjórn virðist ekki geta setið á sér að koma með óljósar aðdróttanir í minn garð nær vikulega. Á sama tíma heldur slitastjórnin því fram að hún reki málið ekki í fjölmiðlum. Slitastjórnin boðar til blaðamannafunda, eins og hún sé lögregluvald og þótt henni takist að blekkja örfáa blaðamenn, sem spyrja einskis, mun sá leikur taka enda og sannleikurinn koma í ljós.

Ef slitastjórnin hefur komist að því, að ég eða aðrir eigi eignir erlendis sem fengnar hafa verið með ólögmætum hætti, þá skora ég á hana að tilkynna þarlendum og innlendum yfirvöldum um það. Af hverju hefur það ekki verið gert? Jú, vegna þess að það eru engar eignir til sem voru fengnar með ólögmætum hætti.

Þessi misheppnaða veiðiferð slitastjórnarinnar mun engu skila þó búið sé að eyða um 1.850 milljónum króna í hana. Fyrir þá tölu mætti kaupa ágætan togara. Ég veit að kröfuhafar hafa óskað eftir upplýsingum, um kostnað vegna málaferlanna í New York og mögulegar heimtur, án árangurs. Af hverju er Steinunn ekki tilbúin að veita kröfuhöfum, sem eru vinnuveitendur hennar, þessar upplýsingar? Það hlýtur að vera rannsóknarefni út af fyrir sig," segir í grein Jóns Ásgeirs.

Skilanefnd Glitnis höfðaði fyrr á árinu mál gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrverandi stjórnarformanni FL Group, og fleiri tengdum aðilum fyrir að hafa svikið tvo milljarða Bandaríkjadala út úr bankanum.

Auk Jóns Ásgeirs er fyrrv. stjórnarformanni Glitnis, Þorsteini Jónssyni, og endurskoðunarfyrirtæki Glitnis, PricewaterhouseCoopers hf., stefnt í málinu. Einnig er Jóni Sigurðssyni, fyrrv. forstjóra FL Group, Ingibjörgu Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs og síðar stjórnarformanni FL Group, Hannesi Smárasyni, Pálma Haraldssyni og Lárusi Welding, fyrrv. bankastjóra Glitnis, stefnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert