Millistéttin missir húsin

Sýslumenn annast nauðungarsölur
Sýslumenn annast nauðungarsölur mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta er enn einn skellurinn og enn ein sönnun þess að ástandið á Suðurnesjum er mjög alvarlegt og ekki á að vera hægt að loka augunum fyrir því, en virðist engu að síður gert,“ segir Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri Reykjanesbæjar. „Upplifun okkar á Suðurnesjum er að ekki sé vilji til að gera neitt fyrir þetta svæði, og fólk veltir fyrir sér hvort það sé af pólitískum ástæðum.“

Líkt og fram hefur komið verða hátt í hundrað eignir á Suðurnesjum seldar nauðungarsölu í næstu viku, flestar í eigu einstaklinga. Hjördís segir ekki aðeins um þá verst settu að ræða. „Þeir eru margir hverjir á leigumarkaðnum. Þetta er millistéttin og í raun fólk sem misst hefur vinnuna og þar með fótanna.“

Mikil ásókn hefur verið í matarúthlutanir Hjálparstarfs kirkjunnar á Suðurnesjum og hafa fjölskyldueiningarnar stækkað frá því sem var. Keflavíkurkirkja heldur einnig úti velferðarsjóði og hefur hann þurft að bregðast við fjölgun umsókna um greiðslur á skólamat fyrir börn. Allt í allt söfnuðust 23 milljónir króna í sjóðinn en vel hefur gengið á hann.

„Eins og náttúruhamfarir“

„Þetta er svona svolítið eins og náttúruhamfarir sem dunið hafa yfir svæðið,“ segir Skúli S. Ólafsson, sóknarprestur í Keflavíkurkirkju. Framkvæmdir hafi haldið uppi atvinnu eftir brotthvarf hersins en þær hafi verið fjármagnaðar með lántökum, eins og allt á þeim þeim tíma. Hann segist finna fyrir miklu vonleysi og kvíða hjá íbúum og ekki hjálpi fjárhagsvandræði sveitarfélagsins. „Þegar þörfin er mest er sveitarfélagið greinilega mjög illa í stakk búið til að taka á þessu.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert