„Skíthræddir“ við nýtt framboð

Mótmælin á Austurvelli í nótt.
Mótmælin á Austurvelli í nótt. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Stjórnmálaflokkarnir eru „skíthræddir“ við að nýtt framboð komi fram á sjónarsviðið, að mati Einars Marar Þórðarsonar stjórnmálafræðings. Einar Mar telur aðspurður hvort stjórnin lifi af til áramóta að afgreiðsla fjármálafrumvarpsins í næstu viku muni að líkindum skera úr um það.

Krafan um nýtt framboð til að gæta hagsmuna heimilanna kom fram á Austurvelli í nótt, krafa sem Einar Mar telur að geti átt hljómgrunn í ljósi þeirrar niðurstöðu nýrrar skoðanakönnunar að um helmingur kjósenda sé ekki tilbúinn að lýsa yfir stuðningi við tiltekinn stjórnmálaflokk. 

„Við sáum hvað gerðist í síðustu sveitarstjórnarkosningum þegar Besti flokkurinn vann mikinn sigur í Reykjavík. Það er það sem menn óttast og þá er ég ekkert endilega að tala um einhvers konar grínframboð í anda Besta flokksins. Ég tel að það sé mikið pláss fyrir nýtt framboð,“ segir Einar Mar og vísar til niðurstaðna áðurnefndrar skoðanakönnunar sem birt var í Fréttablaðinu á mánudag.

Mun fleiri óákveðnir en venjulega

Einar Mar bendir á að við könnunina hafi ítrekað verið spurt um stjórnmálaafstöðu og að venjulega skili slíkar kannanir 5-10% aðspurðra í hóp óákveðinna. Hlutfallið sé því miklu hærra en menn eigi að venjast.

„Kjósendur eru mjög áttavilltir. Könnunin var líklega gerð síðustu helgi og endurspeglar þá ekki þá atburði sem hafa orðið síðan, þar með talið kosninguna um landsdóm. Ég held að það mál hafi ekki orðið til að auka traust fólks á stjórnmálamönnum og flokkum.“

Einar Mar heldur áfram og segist telja að vissir þingmenn sem hafi flækst inn í styrkjamál og önnur erfið mál að undanförnu „óttist verulega kosningar“.

„Þeim verður hreinlega hent út ef það verður farið í kosningar.“

Litlar líkur á kosningum fyrir áramót

- Hvaða líkur telurðu á því að við sjáum nýtt framboð fyrir jól og þá jafnvel kosningar fyrir áramót?

„Ég tel reyndar mjög litlar líkur á því að við sjáum kosningar fyrir áramót og það er af því að ég held að flokkarnir leggi ekki í kosningar, til dæmis vegna þess að þeir eru skíthræddir við að það komi fram nýtt framboð,“ segir Einar Mar sem telur að „innst inni sé holur hljómur“ í ákalli einstakra þingmanna um kosningar.

Einsdæmi í stjórnmálasögu landsins

- Heldurðu að stjórnin lifi til áramóta?

„Ég hef alltaf talið að fjárlagafrumvarpið muni skera úr um það hvort stjórnin lifi af til áramóta. Ég er ekki tilbúinn til að spá neinu um það. Hitt er ljóst að það verða mikil átök um þetta fjárlagafrumvarp. Ég held að það verði stjórnarflokkunum erfitt að koma því í gegn, sérstaklega eftir landsdómsmálið.

Ég tel að ef það verði kosningar einhvern tímann á næstu mánuðum, hvort sem það verður fyrir eða eftir áramót, að það komi fram nýtt eða ný framboð,“ segir Einar Mar sem svarar því aðspurður til að hræringarnar eftir hrun séu einsdæmi í stjórnmálasögu lýðveldisins. 

Einar Mar Þórðarson
Einar Mar Þórðarson Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert