Gorgelhátíð fyrir nýju orgeli

Guðríðarkirkja.
Guðríðarkirkja. Ómar Óskarsson

Gorgelhátíð Guðríðarkirkju hefst á morgun en með henni er verið að safna peningum svo hægt sé að ljúka við smíði orgels í kirkjuna. Sem stendur er verkið stopp og verður verkstæði Björgvins Tómassonar orgelsmiðs lokað  safnist ekki peningar til að halda smíðinni áfram.

Að sögn Lovísu Guðmundsdóttur, kirkjuvarðar í Guðríðarkirkju, er búið að borga 9 milljónir kr. inn á orgelið en eftirstöðvarnar hækkuðu gríðarlega eftir hrunið 2008 og telur Lovísa að eftir sé að borga á bilinu 20-30 milljónir króna.

„Ástæðan fyrir því að við höldum þessa hátíð er að Björgvin, orgelsmið, vantar peninga til að halda verkinu áfram, annars fer hann úr landi en þetta er eina orgelið sem er í smíðum hjá honum núna,“ segir Lovísa. Fjórir menn hafa haft fulla atvinnu við smíðina. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að orgelið kæmist upp á þessu ári en vegna tafanna kemst það í fyrsta lagi upp árið 2012, að því gefnu að söfnunin gangi vel í næstu viku. „2012 er draumurinn,“ segir Lovísa.

Eins og fyrr segir hefst hátíðin á morgun og stendur í viku. Listamennirnir sem fram koma eru ekki af lakara taginu, t.a.m. Diddú, Páll Óskar, KK, Garðar Thór Cortes, Raggi Bjarna og margir fleiri.  „Þetta verða frábærir tónleikar,“ segir Lovísa. „Við vonumst til að fylla kirkjuna alla næstu daga.“

Miðaverð er 2.500 kr. en nánari upplýsingar má fá á grafarholt.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert