Mótmæla reglum um þjóðgarðinn

Eftirlitsmenn kanna hvort litaða olíu er að finna á jeppunum.
Eftirlitsmenn kanna hvort litaða olíu er að finna á jeppunum. Halldór Kolbeins

Hópur fólks er á leið á jeppum upp að Kistuöldu neðan við Vonarskarð í þeim tilgangi að mótmæla fyrirliggjandi drögum að reglugerð um rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs og drögum að stækkun friðlands Þjórsárvera. Hópurinn var stöðvaður af eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar sem kannaði hvort einhverjir væru að nota litaða olíu.

Ekki er vitað til þess að eftirlitsmenn hafi fundið neitt óeðlilegt hjá ferðafólkinu.

Í fréttatilkynningu frá hópnum segir að fjölmenn félagssamtök og almenningur hafi ekki verið hafður með í ráðum við undirbúning að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. „Upplýsingastreymi til félagasamtaka, ferðaþjónustuaðila, fyrirtækja og almennings hefur nánast ekkert verið og þessum aðilum var ekki boðin þátttaka í undirbúningsferlinu fyrr en á síðustu dögum verkefnisins. Fjölmargir aðilar gerðu athugasemdir við lokun ferðaleiða í drögunum s.s. Vonarskarði, Heinabergsdal, Vikrafellsleið og fjölmörgum öðrum leiðum á hálendinu. Í drögum til ráðherra hefur ekki verið tekið tillit til athugasemda frá félagasamtökum eins og Skotvís, Ferðaklúbbnum 4x4, Landsambandi hestamanna eða frá almenningi.“

Talið er að sendar hafi verið hátt í 6000 athugasemdir  við reglurnar, þar af bárust yfir 5000 athugasemdir í formi póstkorta með stöðluðum athugasemdum. Þegar stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hafði lokið að fara yfir athugasemdir, var öllum aðilum sem gerðu athugasemdir sendur staðlaður tölvupóstur og tilkynnt að nánast óbreitt drög yrðu send ráðherra, að því er segir í tilkynningunni.


Til að mótmæla þessum vinnubrögðum stjórnvalda hafa útivistarfélög, ferðaþjónustuaðilar og fyrirtæki ákveðið að standa fyrir táknrænni athöfn við Kistuöldu neðan við Vonarskarð laugardaginn 2. október kl. 13:00 þar sem reisa á fimm metra háan kross til minningar um ferðafrelsi Íslendinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert