Bankarnir hafa dregið lappirnar

Forsætisráðherra gagnrýndi bankana í stefnuræðu sinni í kvöld.
Forsætisráðherra gagnrýndi bankana í stefnuræðu sinni í kvöld.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, gagnrýndi bankana í stefnuræðu sinni fyrir að draga lappirnar þegar komi að því að leysa úr stöðu einstaklinga sem eru að komast í þrot.  „Við þetta verður einfaldlega ekki unað og stjórnvöld hljóta að fara fram á skýringar og úrbætur," sagði Jóhanna.

„Það gengur ekki að eigur fólks séu settar á uppboð fyrr en allar aðrar leiðir hafa verið fullreyndar. Í einhverjum tilvikum er sú leið hinsvegar óhjákvæmileg og þá verðum við að geta treyst á leigumarkaðinn og félagslegar húsnæðislausnir," sagði hún. 

Jóhanna sagði, að fyrirliggjandi greiningar sýni að lágtekjuheimilin séu fyrst og fremst að sligast undan skuldum. Um 80% heimila með ráðstöfunartekjur undir 150 þúsund krónum séu í miklum vanda. Stór hluti af þessum vanda stafi af gengistryggðum lánum, en áætlað sé að nýfallinn gengisdómur muni lækki skuldir heimilanna um 43 milljarða króna og fækki heimilum í skuldavanda um fimm þúsund. 

Þá sagði Jóhanna að um 60-80 þúsund manns hefðu notið margvíslegra úrræða og réttarstöðu skuldara hefði gerbreyst til hins betra frá því sem var fyrir hrun. Fólk sem ekki ráði við skuldir sínar eigi að geta fengið þær lagaðar að greiðslugetu og verðmæti eigna.

„Allt frá febrúar 2009 hafa ríkisstjórnin og Alþingi staðið fyrir frestunum á nauðungarsölum. Þann tíma átti að nýta til þess að gefa fólki svigrúm til þess að vinna úr sínum málum. Við munum áfram tryggja fólki þann rétt að geta fengið frest á nauðungarsölu, á meðan að unnið er að úrlausn mála viðkomandi einstaklinga hjá lánastofnunum.

Mörg heimili hafa nú þegar fengið skjól eða úrlausn sinna mála með greiðsluaðlögun. Allar fjölskyldur í vanda eiga að leita til umboðsmanns skuldara. Umsókn um greiðsluaðlögun kemur fjölskyldum í skjól. Við munum tryggja umboðsmanni skuldara fjármuni til að vinna hratt í þeim málum sem til úrlausnar eru. Við þurfum líka að treysta á að dómskerfið vinni með okkur í þessu verkefni og tryggi að greiðsluaðlögunarúrræðið nýtist eins og að var stefnt.

Ég verð að segja í hreinskilni að hinir nýju bankar hafa valdið mér vonbrigðum þegar kemur að skuldaaðlögun fólks og fyrirtækja. Samið var við fjármálastofnanir um að þær kæmu til móts við viðskiptavini sína með sértækri skuldaaðlögun á grundvelli laga.

Nú liggur fyrir fagleg úttekt á frammistöðu bankanna í þessum efnum í skýrslu eftirlitsnefndar með framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar. Þar kemur fram að bankarnir hafa gert fáa samninga um sértæka skuldaaðlögun einstaklinga, eða alls 128 til ágústloka og 51 fyrirtæki hefur farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu á þessum grunni," sagði Jóhanna Sigurðardóttir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert