Eins og á Reykjanesbrautinni

Margir fóru í gegnum Héðinsfjarðargöng um helgina.
Margir fóru í gegnum Héðinsfjarðargöng um helgina. mbl.is/Jóhann Óli Hilmarsson

„Þetta var eins og á Reykjanesbrautinni, bílarnir komu svo þétt niður Saurbæjarásinn,“ segir Guðný Sölvadóttir, stöðvarstjóri á bensínstöð Olís á Siglufirði. Mikil umferð var um bæinn um helgina, eftir opnun Héðinsfjarðarganga.

„Hér hefur oft verið margt um manninn, eins og til dæmis á Síldarævintýri. Okkur fannst meira að gera um helgina,“ segir Guðný. Hún varð til dæmis að kalla út fleira fólk til afgreiðslu.

Svo virðist sem margir gestir úr nágrannabæjunum við Eyjafjörð og Skagfirðingar hafi notað sér göngin um helgina. Auk þess að koma við í sjoppum og veitingastöðum skoðuðu margir söfnin.

Þannig komu á þriðja hundrað gestir í Síldarminjasafnið á Siglufirði, að sögn Rósu Húnadóttur. Það er eins og á bestu helgum yfir hásumarið. Hún tekur fram að hluti af þeim hundrað gestum sem komu þar við á laugardag hafi ekki verið að skoða safnið heldur fylgjast með beinni útsendingu frá opnun ganganna.

Síldarminjasafnið lokar venjulega 15. september. Rósa segir að sú mikla umferð sem var um helgina og hefur raunar verið að undanförnu kalli á að opnunartíminn verði endurskoðaður. Reiknar hún með að safnið verið haft opið á ákveðnum tímum í október enda megi búast við töluverðri umferð á næstunni, á meðan veður helst gott.

Guðný í Olísstöðinni segir að margir hafi farið til baka um göngin en töluvert hafi verið um það að fólk færi Siglufjarðarveg, og nýtt sér möguleikann á hringleiðinni um Skagafjörð. 

Fólk sem ég hef ekki séð áður

Umferð hefur einnig aukist um Bolungarvík eftir að Bolungarvíkurgöng voru opnuð fyrir rúmri viku. „Ég hef fengið hingað inn fólk sem ég hef ekki séð áður og hefur sérstaklega tilkynnt að það sé bara að koma út af göngunum,“ segir Sigurgeir Sigurgeirsson, veitingamaður í Shellskálanum í Bolungarvík.

Hann segir að margir hafi verið hræddir við að fara til Bolungarvíkur vegna Óshlíðarinnar og noti nú greinilega tækifærið. 

Sigurgeir segist einnig hafa orðið var við fjölgun gesta í Sundlaug Bolungarvíkur og segir talað um að meira sé að gera í verslunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert