Loforðið snerist um að fara ekki í flata skuldalækkun

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að stjórnvöld hafi ekki lofað því að grípa ekki til frekari aðgerða til hjálpar heimilunum í landinu. Það sé hins vegar rétt að stjórnvöld hafi heitið Alþjóðagjaldeyrissjóðnum því að lækka ekki skuldir með flatri niðurfellingu enda sé það samdómaálit manna að það yrði óumræðilega dýrt.

„Ég vil taka það fram vegna fjölmiðlaumfjöllunar í dag um að íslensk stjórnvöld hafi afsalað sér öllum rétti, eða jafnvel beðið um að afsala sér öllum rétti, til að aðhafast frekar í skuldavanda heimilanna; það er einfaldlega fjarstæða. Það er rangtúlkun á því sem stendur i samstarfsyfirlýsingunni og það hefur ekkert slíkt afsal eða framsal farið fram enda ekki hægt.

Valdið til þess liggur hér í þessari stofnun ef við kjósum að setja lög um eitthvað sem að því snýr. Hitt er rétt að þar er tekið fram að þar séu ekki fyrirhugaðar flatar skuldaniðurfellingar enda hefur það verið mat manna fram að þessu að slíkar ráðstafanir, ætti eitthvað að muna um þær, yrðu fljótt óumræðilega dýrar og ekki skilvirkar til að ná til þeirra hópa sem í mestum vanda eru.“

Steingrímur sagði að margt hefði áunnist á síðustu tveimur árum, en ekki hefði allt gengið upp og sumt gengi of hægt. Fjármálafrumvarpið væri enginn gleðiboðskapur. Það yrði að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs. Núna færi 15% útgjalda ríkissjóðs í að greiða vexti. Þeir fjármunir yrðu ekki notaðir í annað. Steingrímur spurði hvort fólk væri sátt við að þetta hlutfall færi í 20% eða 25%.

Steingrímur sagði gríðarlega mikilvægt að það tækist að greiða úr skuldavanda fyrirtækjanna. Það hefði gengið of hægt að vinna úr vanda þeirra og mörg fyrirtæki væru lömuð vegna skulda. Vextir væru núna lágir og því góðar aðstæður til fjárfestinga, en fyrirtækin færu ekki í fjárfestingar meðan ekki væri búið að greiða úr skuldum þeirra.

Steingrímur sagði ekki síður mikilvægt að vinna úr skuldamálum heimilanna. Hann sagðist vera tilbúinn til að skoða tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert