Fréttaskýring: Veggjöld um GPS í stað eldsneytisskatta?

Skera á niður framlög til viðhalds- og stofnkostnaðar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2011 um 3,9 milljarða kr. Er samdrátturinn mestur í vegaframkvæmdum og hljóðar upp á um 3 milljarða kr.

Ríkinu er ekki fært að taka lán fyrir framkvæmdum við vegi landsins og því ljóst að ef áform um stórtækar vegaframkvæmdir eiga að verða að veruleika er mikið í húfi að samkomulag takist í yfirstandandi viðræðum við lífeyrissjóði um fjármögnun þeirra.

Viðræðurnar eru í fullum gangi þessa dagana. Viðræðunefnd fór yfir stöðuna fyrir helgi og vinnuhópar funda stíft. „Þessar viðræður eru í eðlilegum farvegi og það er fundað reglulega,“ segir Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða.

Verkefnin eru breikkun Suðurlandsvegar, framkvæmdir við Reykjanesbraut, breikkun Vesturlandvegar og brú yfir Ölfusá. Um þessi verk verður stofnað félag sem hefur vinnuheitið Vegaframkvæmdir ohf. Norðurverkefnið svokallaða er gerð Vaðlaheiðarganga.

Ef lífeyrissjóðir lána til framkvæmdanna verða tekin upp veggjöld til að standa undir kostnaðinum. Skv. upplýsingum blaðsins er áformað að veggjaldið verði samræmt þannig að það verði svipað eða það sama á hvern ekinn kílómetra á þessum vegköflum. Fram kom á kynningu Hreins Haraldssonar vegamálastjóra fyrir lífeyrissjóðunum að gera má ráð fyrir að minnsta kosti 4 innheimtustöðvum eða tollhliðum á Suðurlandsvegi og 2-4 á Reykjanesbraut. Líklegast er talið að gjaldtakan verði sjálfvirk og síðar verði svo hægt að taka upp gjaldtöku með GPS tækni þar sem upplýsingar um akstur bíls á gjaldskyldum vegarkafla eru sendar til innheimtustöðva í gegnum gervihnetti. Eftir það yrðu tollhliðin óþörf.

Að sögn Hreins eru þessi áform hluti af umræðunni um framtíðarbreytingar á fjármögnun vegakerfisins í heild. Hún gengur út á byltingarkennda breytingu þar sem eldsneytisgjöld af bifreiðum yrðu felld niður og kílómetramæling kæmi í staðinn á öllum vegum á landinu. ,,Þetta er það sem þjóðir eru að búa sig undir út um alla Evrópu. Það er að koma ný tækni í bílvélum sem ekki nota hefðbundið eldsneyti. og þá er spurningin sú hvort taka eigi upp ný eldsneytisgjöld á metan, vetni og jafnvel rafmagn o.s.frv., eða hvort vegfarendur greiði fyrir afnot af vegakerfinu miðað við notkun.“

„Þetta er hvergi hugsað sem viðbótargjaldtaka heldur að hún komi í staðinn fyrir að tekið er gjald af hverjum bensín- og dísellítra í dag.“

Persónuvernd bíður svars

Persónuverndarsjónarmið vega þungt og setja yrði ströng skilyrði um meðferð upplýsinganna. Persónuvernd óskaði fyrr á þessu ári eftir upplýsingum samgönguráðuneytis í tilefni af umræðunni um gjaldheimtu af ökumönnum. ,,Það höfðu komið fram hugmyndir og við vildum fá upplýsingar um hvernig menn sæju fyrir sér að þær yrðu útfærðar og nánari lýsingu á hvernig þetta yrði framkvæmt en sú lýsing hefur ekki borist okkur og þar við situr,“ segir Sigrún Jóhannesdóttir, forstjóri Persónuverndar. „Það er ekki verið að tala um eftirlit í þágu löggæslu heldur gjaldtökueftirlit og þar eru ekki eins rúmar heimildir og lögreglan hefur í þágu allsherjarreglu.“

Dulkóðuð gögn

Verði vegtollarnir innheimtir með aðstoð gervihnattar má gera ráð fyrir að í öllum bílum verði tölvukubbur, staðsetningartæki, sem tengist gervihnettinum. Gervihnötturinn sendir gögn um staðsetningu í gegnum GPS staðsetningarkerfið. Tækið í bílnum uppgötvar að bíllinn er kominn á gjaldskyldan vegarkafla og reiknar út vegtollinn. Upphæðin er síðan send í gegnum GSM-fjarskiptakerfið til innheimtustöðvar og verða upplýsingarnar um akstur bílsins dulkóðaðar. Upphæð gjaldsins verður væntanlega tengd við ekna vegalengd og einnig kemur til greina líkt og gert er í ýmsum Evrópulöndum að miða mismunandi fjárhæðir við mengunarflokk bifreiða og fjölda öxla.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert