Icesave ekki vísað til EFTA-dómstólsins

Stjórnvöld hafa enga ákvörðun tekið um að vísa Icesave-málinu til EFTA-dómstólsins. Þetta kom fram í svari Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar Sjálfstæðisflokki á Alþingi.

Sigurður Kári spurði fjármálaráðherra hvernig ríkisstjórnin ætlaði að svara áminningarbréfi Eftirlitsstofnunar EFTA sem barst í maí vegna Icesave.  Benti hann á að í starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segði að Icesave-málið væri til skoðunar hjá ESA og að ágreiningurinn verði til lykta leiddur fyrir EFTA-dómstólnum.

Sigurður Kári sagði að þetta væri tíðindi ef ríkisstjórnin hefði ákveðið að leggja Icesave undir dóm EFTA-dómstólsins og kvaðst hann fagna þeirri stefnubreytingu.

Steingrímur sagði að frá því bréf ESA barst hefði tíminn verið notaður vel til að undirbúa málsvörn Íslands. Fengist hefði lengri frestur sem væri nú útrunninn.

Steingrímur sagði að orðalag í starfsmannaskýrslu AGS væri ekki nákvæmt um þetta. Átt hafi sér stað samskipti við Breta og Hollendinga í Icesave-deilunni og þeim dyrum hefði enn ekki verið lokað. „Stjórnvöld hafa enga ákvörðun tekið um að vísa málinu til EFTA-dómstólsins,“ sagði Steingrímur. Hann sagði að textinn í samstarfsyfirlýsingu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn væri árétting þess sama og sagt hafi verið strax í upphafi samstarfsins við AGS í nóvember 2008.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert