Rótgrónum þankagangi þarf að breyta

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason

Skuldir umfram greiðslugetu hafa ekki verið felldar niður þrátt fyrir að stjórnvöld hafi samþykkt að slíkt eigi að gera. Þar stendur hnífurinn í kúnni, að mati efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann segir að um rótgróinn þankagang að ræða í bankakerfinu og dómskerfinu sem þurfi að breyta.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, að litið sé svo á í bankakerfinu og dómskerfinu að ámælisvert sé að lækka skuldastöð fólks og fyrirtækja þegar ekki er hægt að greiða skuldir að fullu. Frekar hafi verið ákveðið að setja fólk í þrot. Þessu þarf að breyta, að mati Árna Páls.

Árni Páll sagði afskaplega mikilvægt að minni fyrirtæki fái fast land undir fætur. Einnig séu gerðar þær kröfur að bankarnir lúri ekki á fyrirtækjum, heldur taki þau inn, umbreyti og setji út aftur.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði út í almenna skuldaniðurfellingu í ljósi skýrslu eftirlitsnefndar sem birt var í morgun. Hann sagði ýmislegt forvitnilegt koma þar fram, s.s. hversu fáir hafa nýtt sér þau úrræði sem eru í boði. Einnig hversu mikið hefur verið afskrifað hjá fáum fyrirtækjum. 

Árni Páll sagðist ánægður með skýrsluna sem gefi raunsæja mynd af ástandi mála. Verið sé að vinna að þeim vandamálum sem upp hafa komið og fjallað er um í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert