Draga þarf úr útgjöldum eða auka tekjur

Ríkisendurskoðun gagnrýnir ýmislegt í framkvæmd fjárlaga
Ríkisendurskoðun gagnrýnir ýmislegt í framkvæmd fjárlaga mbl.is/Jim Smart

Ríkisendurskoðun telur að draga þurfi útgjöld verulega saman og/eða auka tekjur á næsta ári eigi markmið stjórnvalda um að rekstur ríkissjóðs skili afgangi árið 2013 að nást. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu 8 mánuði ársins.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að tekjur ríkisins á tímabilinu voru 13 milljörðum króna yfir áætlun. Skýringin er eingöngu sú að sala eigna skilaði meiri tekjum en reiknað var með. Tekjur af sköttum voru hins vegar í heild minni en áætlað var. Gjöld ríkisins voru 25 milljörðun króna undir áætlun og munar þar mestu um að rekstrargjöld stofnana voru minni en reiknað var með.

Afkoma ríkissjóðs var því 38 milljörðum króna betri á tímabilinu en búist var við í upphafi ársins. Engu að síður varð 52 milljarða króna halli á rekstrinum.

Mörg dæmi um að ráðuneyti samþykki áætlir sem ekki rúmast innan fjárheimilda

Fram kemur að mörg dæmi séu um að ráðuneytin hafi samþykkt rekstraráætlanir stofnana sem ekki rúmast innan fjárheimilda þeirra. Fjárheimild stofnunar samanstendur af framlagi til hennar í fjárlögum, mögulegum viðbótarframlögum á árinu og afgangi eða halla frá fyrra ári.

Þetta þýðir að ef stofnun er rekin með halla eitt ár þá dregst hann af því fé sem hún hefur til ráðstöfunar árið eftir. Allmargar stofnanir eru með halla frá því á síðasta ári og hjá flestum þeirra hefur hann safnast upp á nokkrum árum, segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Ástæða þess að ráðuneytin hafa samþykkt rekstraráætlanir umfram fjárheimildir er einkum sú að þau vilja gefa þessum stofnunum lengri tíma en eitt ár til að greiða niður hallann.

Í skýrslunni er bent á að ráðuneytin hafi ekki lagaheimild til að samþykkja útgjöld umfram fjárheimildir. Brýnt sé að Alþingi, sem fer með fjárstjórnarvald ríkisins, grípi í taumana. Annað hvort með því að hækka fjárheimildir þeirra stofnana sem hér um ræðir eða knýja á um samdrátt í rekstri þeirra.

Menntamálaráðuneytið þarf að taka sig verulega á

Flest ráðuneytin hafa að undanförnu styrkt eftirlit sitt með framkvæmd fjárlaga. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf mennta- og menningarmálaráðuneytið þó að taka sig verulega á í þessu efni. 64 stofnanir voru reknar umfram fjárheimildir á fyrstu átta mánuðum þessa árs en það er mun minni fjöldi en á sama tímabili undanfarin ár.

Forsætisráðuneytið harðlega gagnrýnt fyrir lögbrot

Samkvæmt mati ráðuneytanna verða einungis þrjár þeirra með halla í lok ársins: Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Flensborgarskóli og Vatnajökulsþjóðgarður.

Í skýrslunni kemur fram að forsætisráðuneytið hafi veitt Þjóðgarðinum á Þingvöllum formlega heimild til að fara 20 milljónum króna fram úr fjárheimild ársins. Ríkisendurskoðun gagnrýnir þetta harðlega enda gengur ákvörðunin þvert gegn lögum. Þá gagnrýnir stofnunin að þótt langt sé liðið á árið á enn eftir að skrá rekstraráætlanir 10 stofnana í bókhaldskerfi ríkisins.

Í skýrslunni er nefnt dæmi um að ráðuneyti hafi gert stofnun að skera niður kostnað sem hún gat ekki vegna bindandi ákvæða í samningi. Ríkisendurskoðun hvetur því Alþingi til að fara ítarlega yfir niðurskurðartillögur í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011 og kanna hvort þær séu raunhæfa

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert