„Fólk fór að gráta“

Húsavíkurkirkja og Bjarnahús.
Húsavíkurkirkja og Bjarnahús. mynd/Sighvatur Karlsson

„Það er náttúrulega þannig að svona gerir maður ekki. Þetta snýst um fólk. Þetta snýst um samfélög. Fólki var brugðið. Fólk fór að gráta,“ segir Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings, í harðorðri gagnrýni á fyrirhugaðan niðurskurð í heilbrigðismálum í sveitarfélaginu. 

Boðað hefur verið til fundar um niðurskurðinn og áhrif hans á sveitarfélagið í íþróttahöllinni á Húsavík klukkan 17.00 nú síðdegis en hann var færður til úr minna húsi vegna fjölda áskoranna.

Bergur Elías segir fólk kvíðið um framhaldið og að ekkert samráð hafi verið haft við heimamenn af hálfu ríkisstjórnarinnar í boðum niðurskurði.

„Það hefur ekki verið rætt við neinn, hvorki sveitarfélagið eða starfsmenn heilbrigðisstofnanna eða stjórnendur þeirra. Síðan er skellt á 40% skerðingu á starfssemina sem þýðir að 60 til 70 starfsmönnum verður að óbreyttu sagt upp.“

Málið snýst um fólk

Hann fordæmir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar.

„Það er náttúrulega þannig að svona gerir maður ekki. Þetta snýst um fólk. Þetta snýst um samfélög. Fólki var brugðið. Fólk fór að gráta. Fólk er kvíðið um framhaldið. Það er ekki hægt að ætlast til þess að lítill hópur, um 1% þjóðarinnar, taki á sig 12-13% af þeirri skerðingu sem á að fara í í heilbrigðisgeiranum. Þetta er bara ekki hægt,“ segir Bergur Elías og bendir á að skera eigi niður um 268 milljónir króna í framlögum til málaflokksins í sveitarfélaginu eða sem nemur 12-13% af heildarniðurskurði í útgjöldum til heilbrigðismála á landinu öllu.

„Þetta var sjokk“

En hvernig komu tíðindin við stjórn sveitarfélagsins?

„Þetta var sjokk. Ég trúi því ekki að þetta ætli að verða að veruleika. Við erum til í að taka á okkur sanngjarna og réttlátan hluta af skerðingu. Svona vinnubrögð verða hins vegar ekki liðin. Það er morgunljóst.“

Bergur Elías segir tveimur ráðherrum hafa verið boðið, Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra og Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra. Hvorugur sjái sér fært að koma á fundinn í kvöld.

Öllum þingmönnum kjördæmisins er boðið

Bergur Elías segir öllum þingmönnum norðvesturkjördæmis hafa verið boðið.

Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknar, sé erlendis. Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, komi líklega sem og Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknar. Þá sé samfylkingarkonan Jónína Rós Guðmundsdóttir upptekin. Kristján Þór Júlíusson, Sjálfstæðisflokki, og Kristján Möller, Samfylkingu, komi líklega báðir. Þá sé reiknað með Sigmundi Erni Rúnarssynni, Samfylkingu, og Tryggva Þór Herbertssyni Sjálfstæðisflokki. Hins vegar sé óvissa með Þuríði Backman í Vinstri grænum.

Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri í Norðurþingi.
Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri í Norðurþingi. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert