Fréttaskýring: Reikna með blússandi aukningu í farþegaflugi

Flugstöð Leifs Eiríkssonar skartar bleikum lit í október
Flugstöð Leifs Eiríkssonar skartar bleikum lit í október

Bæði Icelandair og Iceland Express veðja á að erlendum ferðamönnum muni fjölga enn hér á landi á næsta ári og jafnframt að Íslendingar muni ferðast meira á því ári en í ár. Fyrrnefnda félagið ætlar sér auk þess að ná til sínum auknum skerfi af alþjóðlega fluginu yfir Atlantshafið. Bæði fyrirtækin fjölga ferðum og áfangastöðum. Alls munu aukin umsvif merkja að vel á þriðja hundruð störf verða sköpuð, langflest hjá Icelandair sem bætir við tveim Boeing-757 þotum.

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, segir að eftir uppsagnir og niðurskurð 2008 hafi nú tekið við ný sókn. „Við fórum inn á Seattle sem hefur gengið afskaplega vel. Núna í ár jukum við ferðaframboðið um 13% en vöxturinn í farþegafjölda og tekjum er aðeins yfir því, í kringum 15-16% miðað við allt árið.

Bókunarstaðan fyrir næstu mánuði er síðan mun betri en framboðsaukningin. Fyrir næsta ár er viðbótin hjá okkur 17% en við misstum mikið vegna gossins þannig að í reynd er þetta kannski ekki mikið meiri aukning en á þessu ári. En þetta er samt allt í rétta átt.

Það sem er að gerast hjá okkur er að þrátt fyrir eldgosið héldum við sama framboði, þurftum ekkert að fella niður flug eða minnka áætlunina þegar allt lokaðist meira eða minna í Evrópu. Það tókst með því að fljúga inn á staði í Evrópu sem opnuðust og færa leiðakerfið til Glasgow. Gosið hafði þess vegna aldrei áhrif á bókunarflæðið frá Íslandi og yfir hafið, aðeins á bókanir hingað.“

Fleiri þakkarnótur en kvartanir í gosinu

Birkir segir aðspurður að félagið hafi ekki fengið á sig neinar kærur vegna óánægðra farþega í gosinu eins og mörg önnur félög lentu í. „Þessa daga þegar truflanir urðu vegna gosöskunnar náðum við að tryggja áfram um 85% af framboðinu okkar, vorum eiginlega aldrei lokaðir inni. Við færðum leiðakerfið til Glasgow og fengum mun fleiri þakkarnótur en kvartanir! Við vorum eina flugfélagið sem færði leiðakerfið, hin biðu bara eftir því að allt opnaðist á ný.“

Hann segir forsendurnar fyrir auknum umsvifum einkum vera að mikil aukning sé í bókunum í alþjóðlegu farþegaflugi yfir Atlantshafið á þessu ári og næsta. Þess vegna sé verið að styrkja kjarnann í leiðakerfinu með meiri tíðni. Miklu skipti að geta boðið upp á ferðir á hverjum degi, markmiðið sé að ná í fleiri farþega sem ætli yfir hafið og þurfi ekki að gera annað en skipta um vél hér á landi.

En einnig sé búist við 10% aukningu í ferðum útlendinga hingað til lands. Langtímaáhrifin af gosinu á ferðaþjónustuna séu góð vegna þess hvað landið hafi fengið gríðarlega mikla kynningu.

Ferðir Icelandair munu yfir háannatímann verða 183 í viku sem merkir að meðaltali 26 komur og 26 brottfarir dag hvern og alls um 9000 farþega. Óttast hann ekki flöskuhálsa í Leifsstöð með svo mikilli aukningu? „Þetta á að ganga á næsta ári en við höfum svolitlar áhyggjur af innviðum í Leifsstöð hvað varðar frekari vöxt,“ svarar Birkir Hólm Guðnason.

„Alls staðar jákvæðni“

Iceland Express er einnig í sóknarhug. „Við munum fara fjórum sinnum í viku til Boston, ætlum að fljúga til Chicago og opnum nýja áfangastaði, Stokkhólm og Glasgow,“ segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express. „Við erum líka að auka tíðnina í ferðum á hefðbundna staði eins og Kaupmannahöfn og London.

Og síðan eigum við að skýra frá nýjum áfangastað á næstu vikum þannig að í heildina erum við að tala um kringum 20% aukningu á umsvifum á næsta ári og við bætum við einni vél. Við gerum ráð fyrir að þetta merki einhverja tugi nýrra starfa og förum fljótlega að auglýsa.“

Félagið gerir ráð fyrir að íslenski markaðurinn stækki 2011 eins og hann hafi gert á þessu ári, miðað við 2009. „Svo verðum við varir við mikinn áhuga á flugi til Íslands, erlendir samstarfsaðilar okkar spá allir aukningu, það er alls staðar jákvæðni. En auk þess gerum við ráð fyrir aukningu í umferðinni yfir Atlantshafið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert