Munu fjárlögin njóta þingmeirihluta?

Ólöf Nordal
Ólöf Nordal mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjárlögin, niðurskurður í heilbrigðiskerfinu og vandi heimilanna í landinu er meðal þess sem var umræðuefni í Silfri Egils í dag. Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, kvartaði yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki vinna með ríkisstjórninni en Ólöf Nordal, Sjálfstæðisflokki, gaf lítið fyrir kvartanir Björns Vals.

Björn Valur á ekki von á því að ríkisstjórnin hætti við niðurskurð í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.

Björn Valur segir að það hafi ekki komið á óvart að heyrst hafi hljóð í horni þegar fjárlögin voru lögð fram. Hann segir að niðurskurðarkrafan hafi aðallega komið frá stjórnarandstöðunni, Samtökum atvinnulífsins og ASÍ. 

Hann segir að ekki sé bara verið að skera niður heldur byggja upp á nýtt. Á landsbyggðinni sé verið að byggja á grunnþjónustunni.

Gunnar Bragi Sveinsson, Framsóknarflokki, segir að ekki gangi upp að skera af tekjuöflun ríkissjóðs á sama tíma og verið sé að segja upp fólki. Hann segir að enn sé birt eitthvað fjárlagafrumvarp sem gangi ekki upp. Hann er ekki viss um að ríkisstjórnin lifi af fjárlögin. Málið sé að mynda hér þjóðstjórn.

Ólöf segir að gera verði ráð fyrir því að ríkisstjórn sem leggi fjárlagafrumvarp hafi stuðning á bak við sig. Það sem sé æpandi með fjárlagafrumvarpið nú er skortur á samstarfi við fólk. Þetta hafi komið heilbrigðisgeiranum fullkomlega á óvart. 

Hún segir ljóst að það verði að skera alls staðar niður og fara niður að sársaukamörkum. Það gangi hins vegar ekki að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna segi á fundum út um allan bæ að þeir styðji ekki frumvarpið.

Mörður Árnason, Samfylkingu, segir að ef bankarnir standa sig ekki í stykkinu þá eigi ríkið að taka þá yfir á ný. Hann segir að hegðun Landsbankans sé ekkert skárri heldur en hinna bankanna þrátt fyrir að vera í ríkiseigu.

Björn Valur varaði við því í Silfri Egils að menn séu að lofa einhverri niðurfellingu skulda sem kannski er ekki hægt að lofa.  Hann segir að mikil niðurfelling skulda þýði skert lífsgæði áratugum saman.

Gunnar Bragi segir að það sé kominn tími til að taka stöðu með þeim sem skuldi. Það sé kki hægt að láta þetta fólk bera allt hrunið. Ekki verði hægt að hleypa lífi í efnahagslífið nema fjárfestingar aukist á ný.

Mörður segir að ríkisstjórnin sé að reyna að mynda skjaldborg utan um þá sem eru verst settir og barnafólk. Með því er reynt að koma í veg fyrir að það bitni á lífeyrisþegum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert