Jussanam bíður svars

Jussanam da Silva
Jussanam da Silva mbl.is

Lögmaður Jussanam Da Silva bíður nú svars frá stjórnvöldum, en hún fékk í haust þær upplýsingar frá Útlendingastofnun að henni bæri að fara af landi fyrir 29. október næstkomandi.  Því hefur nú verið frestað.

Forsaga málsins er að Útlendingastofnun tók ákvörðun þann 6. maí um að afturkalla dvalarleyfi Jussanam. Það var gert á grundvelli þess að í apríl var gefið út leyfi til skilnaðar að borði og sæng, en Jussanam var gift íslenskum manni.

Í afturkölluninni kom fram að hún þyrfti að sækja um bæði dvalar- og atvinnuleyfi, hygðist hún dvelja áfram á landinu. Það gerði Jussanam í maí, en umsókn hennar um atvinnuleyfi var synjað í lok júní.

Sú ákvörðun hefur verið kærð til félagsmálaráðuneytisins, en þar sem kæran barst ekki innan lögbundins kærufrests, er verið að skoða hvort kæran sé tæk til efnismeðferðar.

Jussanam sótti einnig um dvalarleyfi í maí. Í lok september var umsókninni synjað.

Sama dag var dóttur hennar einnig synjað um dvalarleyfi, en hún hafði fengið útgefið dvalarleyfi á þeim forsendum að móðir hennar var í hjúskap með íslenskum ríkisborgara.

Í ákvörðuninni kom fram að mæðgunum bæri að yfirgefa landið sem allra fyrst, eigi síðar en 30 dögum eftir að þær tóku á móti ákvörðuninni. Það var 29. september og þeim gefin lokadagsetningin 29. október. Þessari ákvörðun hefur nú verið frestað.

Jóhannes Eiríksson, lögmaður Jussanam, segir að samkvæmt lögum um útlendinga geti þeir fengið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenska ríkisborgara. Samkvæmt íslenskum lögum ljúki hjúskap ekki fyrr en lögskilnaðarleyfi hefur verið gefið út. Slíkt leyfi er ekki veitt fyrr en í fyrsta lagi fyrr en sex mánuðum eftir að leyfi til skilnaðar að borði og sæng hefur verið veitt.

„Umbjóðandi minn er þeirrar skoðunar að þar sem hjúskap hennar er ekki lokið, þá sé dvalarleyfi hennar enn í fullu gildi,“ segir Jóhannes.

Jóhannes segir þau bíða eftir útskýringum stjórnvalda, hann hafði óskað þess að þær bærust ekki síðar en í gær.

Jóhannes segir Jussanam hafa orðið fyrir miklu tjóni, bæði fjárhagslegu og andlegu, en hún hefur þurft að láta af störfum á frístundaheimilinu þar sem hún hefur starfað, á meðal mál hennar eru enn í óvissu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert