Ekki raunverulegur samráðsvettvangur

Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar

Ríkisstjórnin fundaði með stjórnarandstöðunni um skuldavanda heimilanna í Stjórnarráðinu í dag, en fundinum lauk um þrjúleytið. Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir aðspurð að engin niðurstaða liggi fyrir.

Fundurinn, sem hafi staðið yfir í um klukkutíma, hafi fyrst og fremst verið upplýsingafundur. 

„Ráðherrarnir gerðu grein fyrir þeim fundarhöldum sem hafa verið í vikunni. T.d. fundir með aðilum vinnumarkaðarins og fleiri hagsmunaðilum, bönkum, lífeyrissjóðum og slíkum,“ segir Ólöf í samtali við mbl.is.

Hún segir að ríkisstjórnin sé að feta sig áfram en henni miði hægt í málinu.

Það sé  mjög mikilvægt að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir því að það verði að horfa á málin á heild. Það hafi hún ekki verið tilbúin að gera.

„Á meðan hún vill ekki líta á atvinnumálin í samhengi við skuldavanda heimilanna, og það að meginlausnin á skuldum fjölskyldna sé trygg atvinna og almennilegur hagvöxtur í landinu, þá er mjög erfitt fyrir okkur að líta svo á að þetta sé raunverulegur samráðvettvangur. Því við getum ekki skilið þetta að,“ segir hún.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Guðbjartur Hannesson heilbrigðis- og félagsmálaráðherra og Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sátu höndin fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Ólöf Nordal, Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sátu fundinn fyrir hönd stjórnarandstöðuflokkanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert