Húsaleiga Íbúðalánasjóðs taki mið af markaðsleigu

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður

Meðal nýmæla í frumvarpi sem ríkisstjórn Íslands samþykkti í morgun varðandi húsnæðismál eru lagðar til breytingar sem heimila Íbúðalánasjóði að bjóða til leigu íbúðir sem sjóðurinn hefur keypt á uppboði þannig að tilteknir húsaleigusamningar verði með kauprétti. Miðað er við að umsamin húsaleiga taki ávallt mið af markaðsleigu á viðkomandi stað.

Ekki er gert ráð fyrir því að leigjanda sé skylt að nýta sér kauprétt heldur verði honum það í sjálfsvald sett. Nánari ákvæði um fyrirkomulag kaupleigu verður sett í reglugerð.

„Ég bind vonir við að þetta ákvæði muni auka verulega húsnæðisöryggi þeirra sem eru illa staddir fjárhagslega og að með þessu opnist fólki sem misst hefur húsnæði á uppboði möguleiki á því að eignast húsnæði á nýjan leik“ segir Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra, í fréttatilkynningu.

Auk þessa er lagt til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að gefa út óverðtryggða skuldabréfaflokka og eins er lagt til að heimildir sjóðsins til að veita lán til endurbóta á fjöleignarhúsum og til að bæta aðgengi að húsnæði fyrirtækja og stofnana verði víkkaðar. Gert er ráð fyrir að þessar breytingar hleypi auknu lífi í byggingaframkvæmdir og fjölgi störfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert