Húsvíkingar sækja um starf

Skjaldborg slegin um Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.
Skjaldborg slegin um Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. mynd/Hafþór

Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem hafa sótt um embætti ráðuneytisstjóra nýs velferðarráðuneytis er frá Húsavík, flestir raunar starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga en einnig sækir Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings, um starfið. Alls eru umsækjendur 89 talsins, þar af yfir sextíu frá Húsavík.

Með þessu vilja bæjarbúar mótmæla þeim niðurskurði sem bæjarfélagið stendur frammi fyrir en samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár verða framlög til Heilbrigðisstofnunarinnar skorin niður um 40%.

Ræstitæknar, starfsmenn í umönnun, læknar, sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar eru á meðal þeirra Húsvíkinga sem hafa sótt um embætti ráðuneytisstjóra. Íbúarnir vilja koma þeim boðum til ráðamanna þjóðarinnar að niðurskurðurinn gangi ekki upp og krefjast þeir útskýringa og svara.

„Þetta er einn liður í að mótmæla þessari óskiljanlegu ákvörðun ráðuneytisins að ætla að gera þetta við landsbyggðina. Því þetta er reiðarslag fyrir alla landsbyggðina, ekki bara Húsvíkinga,“ segir Gunnar Rafn Jónsson, læknir á Húsavík í samtali við mbl.is, en hann er einn þeirra sem hafa sótt um embætti ráðuneytisstjóra.

Hann bendir á að bæjarbúar hafi einnig skrifað greinar í blöð og þá hafi þeir fjölmennt á borgarfund í síðustu viku, en um 1300 manns mættu á fundinn til að ræða fyrirhugaðan niðurskurð í sveitarfélaginu. 

Gunnar segir að aðgerðir stjórnvalda séu órökstuddar. „Þeir hafa ekki sýnt fram á að það sé hægt að gera þessar aðgerðir, sem við gerum hér í hundraðatali, með ódýrari hætti annarstaðar. Þeir hafa ekki sagt hvað á að gera við sjúklingana sem liggja inni á öllum sjúkrasviðum sjúkrahúsa í kringum landið. Þeir reikna ekki með neinum viðbótarkostnaði, hvorki á FSA (Sjúkrahúsinu á Akureyri) né Landspítalanum. Svona hegðun er, finnst mér, út í bláinn hjá ráðamönnum.  

Ég gæti skilið það ef þeir hefðu sett einhver rök á móti hvernig þeir ætla að fara að þessu og hvað á að gera við sjúklingana. En þeir geta ekkert um það,“ segir Gunnar ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert