Andstaða við gistináttagjald

Enn hefur engin ákvörðun verið tekin hjá stjórnvöldum um hvernig skuli útfæra svonefnd umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu. Iðnaðarráðherra fundaði með Samtökum ferðaþjónustunnar í vikunni og mættu hugmyndir um gistináttagjald, sem unnið hefur verið með í ráðuneytinu, mikilli andstöðu.

Nefnd fjármálaráðherra um umhverfisgjöld lagði til í mars sl. að sett yrði á gistináttagjald til að ferðamenn greiddu með einhverjum hætti fyrir dvöl sína í náttúru landsins og þá þjónustu sem þar væri fyrir hendi. Því gæti verið þannig háttað að föst krónutala yrði lögð á hverja gistinótt óháð verði á gistingu.

Í samræmi við tillöguna hefur verið unnið að málinu áfram í iðnaðarráðuneytinu. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segir að hún hafi farið til að heyra skoðanir samtakanna á fimmtudag. Hlustað verði á þær athugasemdir sem komið hafi fram og málið skoðað. Svo virðist sem meiri áhugi sé á því innan ferðaþjónustunnar að leggja á sérstakt farþegagjald í stað gistináttagjalds. Yrði þá að leggja gjaldið bæði á millilanda- og innanlandsflug. Á fundinum á fimmtudag kom upp sú hugmynd að hægt væri að setja kílómetragjald á farþega, og fékk það nokkuð góðar viðtökur.

Óvíst er hvenær frumvarp verður lagt fyrir Alþingi um málið. Á meðan er skoðað að leggja þjónustugjald á ferðamenn sem fara um Þingvelli. Í bréfi þjóðgarðsvarðar til ferðaþjónustufyrirtækja segir að það sé nauðsynlegt ef takast á að láta þjóðgarðinn standa undir þeim kröfum sem gerðar eru til hans. Einnig er óskað eftir góðu samstarfi við ferðaþjónustuna um málið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert