„Vonin bjargar mannslífum“

Regnbogi yfir Hallgrímskirkju í Reykjavík. Mynd úr safni.
Regnbogi yfir Hallgrímskirkju í Reykjavík. Mynd úr safni. mbl.is/Ásdís

Nú er genginn í garð alþjóðlegur baráttudagur gegn fátækt og af því tilefni tileinkaði Þjóðkirkjan prédikanir sínar og fyrirbænir fátækt og félagslegri einangrun í dag. Þá hljómuðu kirkjuklukkur lengur að loknum messum í því skyni að minna almenning á þennan verðuga málstað.

„Það er gott að það sé talað um fátækt þegar þeir fátæku eru að verða fátækari. Við hjá kirkjunni verðum átakanlega vör við fátækt og þá sér í lagi í tengslum við hjálparstarf okkar. Mér finnst mikilvægt að láta þennan dag verða ámenningu um að berjast fyrir þeim tekjuminnstu svo að meiri jöfnuður verði. Á þessum erfiðu tímum verðum við að halda í vonina,“ segir  Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni og verkefnisstjóri hjá Biskupsstofu í samtali við mbl.is og bætir við að vonin hafi oft bjargað mannslífum.

Í ár er hið svokallað Evrópuár gegn fátækt og félagslegri einangrun og segir Ragnheiður kirkjuna hafa viljað leggja því lið með að vekja athygli á alþjóðlega baráttudeginum.

Ragnheiður var með guðþjónustu í  Laugarneskirkju í dag og að henni lokinni lá leiðin í Hátúnið, þar sem Öryrkjabandalagið heldur guðþjónustu annan hvern sunnudag. Hún sagði fólk skilja baráttuna vel og að það geri sér grein fyrir núverandi stöðu í landinu.

„Ég sagði í prédikun minni í dag að ef þú átt tvær yfirhafnir þá áttu að gefa aðra og ef þú átt nægan mat og aðrir svelta, þá áttu að gefa þeim af matnum. Þá sagði ég að Jesús væri róttækari en nokkur róttækur jafnaðarmaður og að hinir róttæku menn komast ekki með tærnar þar sem Jesús er með hælana.“

Ragnheiður Sverrisdóttir djákni og verkefnissstjóri á Biskupssstofu Þjóðkirkjunnar.
Ragnheiður Sverrisdóttir djákni og verkefnissstjóri á Biskupssstofu Þjóðkirkjunnar. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert