Hefja strax rannsókn á Landsbankanum

Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að rannsókn á markaðsmisnotkun með hlutabréf í Landsbankanum muni hefjast þegar í stað. Fjármálaeftirlitið vísaði málinu til sérstaks saksóknara í gær.

Sérstakur saksóknari hefur staðið fyrir mjög viðamikilli rannsókn á meintri markaðsmisnotkun stjórnenda Kaupþings með hlutabréf í bankanum. Því máli var einnig vísað til hans frá Fjármálaeftirlitinu.

Ólafur Þór sagðist ekkert geta sagt efnislega um Landsbankamálið að öðru leyti en því að rannsókn á málinu sé að hefjast. „Það má segja að það sem hefur sést í Kaupþingsrannsókninni gefi vísbendingar um hvers konar mál þetta er og hvert því er beint,“ sagði Ólafur Þór þegar hann var spurður um umfang málsins.

Ólafur sagði að Kaupþingsmálið væri mjög umfangsmikið og rannsókn þess hefði kallað á mikla vinnu. Hann sagði að ekki sæi fyrir endann á rannsókninni. Ólafur sagði að starfsmönnum embættisins hefði fjölgað það mikið að hægt væri að fara strax í að rannsaka Landsbankamálið.

Fjármálaeftirlitið telur ástæðu til að ætla að stjórnendur Landsbankans hafi beitt markaðinn blekkingum í allt að fimm ár. Viðurlög við markaðsmisnotkun varða allt að sex ára fangelsi ef sök sannast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert