Hópur ráðuneytismanna á ferð um landið

Víða um land hafa íbúar mótmælt fyrirhuguðum niðurskurði á fjárframlögum …
Víða um land hafa íbúar mótmælt fyrirhuguðum niðurskurði á fjárframlögum til heilbrigðisstofnana, þar á meðal á Ísafirði. mynd/bb.is

Hópur á vegum heilbrigðisráðuneytisins er nú á ferð um landið og heldur fundi með framkvæmdastjórum heilbrigðisstofnana og heimamönnum til að safna upplýsingum um stöðu mála þar sem til stendur að skera niður fjárveitingar.

Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra, upplýsti þetta í umræðu utan dagskrár á Alþingi í dag um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Verður hópurinn á Akureyri og Húsavík í dag.

Hann sagði að verið væri að fara yfir öryggismál, hvaða þjónusta væri nauðsynleg í hverju héraði, hvaða þjónusta mætti missa sín og hvernig koma mætti hlutum betur fyrir.

„Ég mun síðan fara yfir þær tillögur og endurskoða og koma með nýjar tillögur fyrir aðra umræðu (um fjárlagafrumvarpið)," sagði Guðbjartur.

Umræðan fór fram að ósk Birkis Jóns Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, sem þakkaði ráðherra fyrir þingmenn hefðu þvert á flokka sýnt vilja til að vinda ofan af þessari vitleysu, eins og Birkir Jón orðaði það. 

Guðbjartur sagðist hafa átt fundi með framkvæmdastjórum heilbrigisstofnana að þeir segðu ekki upp fólki fyrr en Alþingi hefði afgreitt fjárlagafrumvarpið í desember og fyrir lægi hver niðurstaðan varðandi fjárveitingar yrði. 

„Það er útilokað að menn fari að framkvæma eftir fjárlagafrumvarpinu um leið og það er lagt fram. Það er ekki lengur í tísku og á ekki lengur við. Það er auðvitað þingið sem hefur rétt til að fara yfir þetta þótt ég leggi áherslu á að staðið verði við markmið fjárlagafrumvarpsins," sagði Guðbjartur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert