Séreignarstefnan liðin undir lok?

Væntanlega munu einhverjir hefja nýtt fjármálalíf í kjölfar setningu laganna
Væntanlega munu einhverjir hefja nýtt fjármálalíf í kjölfar setningu laganna

Greiningardeild Arion banka telur ýmislegt jákvætt við nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar um að stytta fyrningartíma skulda við gjaldþrot niður í 2 ár. Þetta geti styrkt stöðu skuldara gagnvart lánastofnunum en hætta sé á að einhverjir ákveði að hefja „nýtt" fjárhagslegt líf. Það þýði söluþrýsting á fasteignamarkaði og mögulega verðlækkun fasteigna.

Það gæti ýtt undir gjaldþrot fleiri en ein helsta ástæðan fyrir því að húseigendur með verðtryggð lán eru komnir með neikvæða eiginfjárstöðu er sú að vísitala neysluverðs hefur hækkað um 29% frá janúar 2008 en á sama tíma hefur húsnæðisverð aðeins lækkað um 15% að nafnvirði.

Felur í sér harðari reglur um eigið fé lántakenda

Greiningardeildin telur að  til lengri tíma er litið munu þessi nýju gjaldþrotalög gerbreyta lánveitingum fjármálastofnana hérlendis þar sem gerð verður mun meiri krafa um eigið fé. Lánamarkaðurinn færist þá aftur til þess sem var fyrir einkavæðingu bankanna – og raunar mun lengra aftur þar sem lán með öðrum veðrétti hverfa úr sögunni og mjög erfitt verður að tryggja viðbótarfjármögnun, segir í markaðspunktum Greiningardeildar Arion banka.

Séreignastefnan líður undir lok

Það feli í raun og veru í sér að hin gamalgróna séreignastefna íslenskra stjórnvalda – þ.e. að öllum sé tryggð lánsfjármögnun til eigin íbúðarkaupa – er í raun liðin undir lok. En aukin krafa um borð fyrir báru í lánveitingum mun gera það verkum að stór hluti fólks mun ekki hafa getu til eigin íbúðakaupa vegna þess að eigið fé skortir – a.m.k. ekki fyrr en hafa leigt og lagt fyrir um einhvern tíma.

Þetta þýðir í hnotskurn að aðgangur uppvaxandi kynslóða að lánsfjármagni mun skerðast stórlega miðað það sem hefur tíðkast hérlendis um nokkurn tíma, segir Greiningardeild Arion banka í markaðspunktum sínum.

Verður hægt að þurrka út yfirdrátt, kortaskuldir ofl.?

Það sem gerir þó ákaflega erfitt um að meta áhrif nýju laganna er að íslensk heimili bera ýmsar aðrar skuldir en húsnæðislán sem kannski geta ráðið úrslitum um hvort gjaldþrotaleiðin verður farin.

„Hefur fólk til að mynda möguleika á því að þurrka út námslánaskuldir við LÍN, kreditkortaskuldir, yfirdrátt, skattaskuldir og svo framvegis með tveggja ára útlegð?

Ef svo er munu áhrifin verða gríðarlega víðtæk og leiða til grundvallarbreytinga á íslenskum þjóðháttum – ekki aðeins að fólk muni aka á eldri bílum og búa í smærri íbúðum heldur munu breytingarnar einnig snúa að fjármögnun framhaldsnáms í útlöndum, stofnun og rekstur einkahlutafélaga, starfsemi einyrkja og svo mætti lengi áfram telja. 

Í öllum tilvikum verður erfiðara og dýrara að fá lánsfjármagn til þess að koma þessum hlutum í kring. Hér verður þó geta þess að frumvarpið hefur ekki enn verið gjört lýðkunnugt og því ekki ljóst hvernig lögin verða útfærð," segir í markaðspunktum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert