65 sagt upp hjá Orkuveitunni

Hellisheiðarvirkjun Orkuveitu Reykjavíkur.
Hellisheiðarvirkjun Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Ómar

Sextíu og fimm starfsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur var sagt upp störfum í dag, 45 körlum og 20 konum. Uppsagnirnar ná til allrar starfseminnar og fengu skrifstofufólk, stjórnendur, sérfræðingar, iðnaðarmenn og verkamenn uppsagnarbréf. Fastráðið starfsfólk á launaskrá er alls 566 og því fækkar um 11%.

Með skipulagsbreytingunum fækkar stjórnendum í skipuriti um helming.

Blaðamannafundur hófst klukkan 17 í dag þar sem skipulagsbreytingarnar eru kynntar. Í tilkynningu frá Orkuveitunni segir, að uppsagnirnar séu liður í umfangsmiklum ráðstöfunum til að styrkja rekstur fyrirtækisins. Þannig hafi gjaldskrá verið hækkuð verulega og eigendur OR ákveðið að fresta öllum arðgreiðslum frá fyrirtækinu. Þá sé á dagskrá að selja eignir sem eru óviðkomandi kjarnastarfsemi OR.

Áður en til uppsagnanna kom hafði verið gripið til ýmissa hagræðingaraðgerða. Bifreiðahlunnindi framkvæmdastjóra voru afnumin og laun þeirra lækkuð til samræmis við lækkuð laun forstjóra. Fækkað var um þriðjung í yfirstjórn OR með því að starf aðstoðarforstjóra og eins framkvæmdastjóra voru lögð af. Nú skipa þrír framkvæmdastjórar yfirstjórnina ásamt forstjóra.

Öllum, sem sagt var upp störfum, stendur til boða 100.000 króna styrkur til greiðslu náms- og námskeiðsgjalda til ársloka 2011 kjósi þeir að styrkja stöðu sína með námi.

Uppsagnarfrestur starfsfólksins, sem sagt var upp störfum, er þrír til sex mánuðir. Það hefur hins vegar verið leyst undan vinnuskyldu og hættir því strax. OR greiðir starfsfólki laun á uppsagnarfresti í samræmi við lög og skyldur þar að lútandi. Að auki fær það viðbótargreiðslur sem miðast við starfsaldur viðkomandi hjá fyrirtækinu. Engum, sem orðinn er 65 ára, var sagt upp störfum.
OR samdi við ráðningarþjónustu um vinnumarkaðsaðstoð og við sálfræðistofu um að aðstoða þá sem þess óska.

Í tilkynningunni segir, að starfsfólk Orkuveitu Reykjavíkur muni kappkosta að áhrif uppstokkunarinnar á grunnþjónustu fyrirtækisins verði sem allra minnst. Þeir sem þurfi að hafa samskipti við OR eru beðnir um að sýna því skilning að næstu vikur verða tímar tilfærslna á mörgum verkefnum innan fyrirtækisins.
Fyrstu áhrifin séu, að gestamóttöku Hellisheiðarvirkjunar hefur verið lokað og hætt verði að taka á móti gestum í Rafheimum og í Minjasafni OR.

Í tilkynningunni er haft eftir Haraldi Flosa Tryggvasyni, stjórnarformanni OR, að hugmyndir um skert starfshlutfall starfsmanna eða tímabundna launalækkun hafi verið ræddar  og metnar. Þær hafi ekki hlotið hljómgrunn þar sem þær séu í eðli sínu tímabundnar. Verið sé að leita varanlegrar hagræðingar.

Segir Haraldur Flosi, að stjórn félagsins hafi lagt mikið upp úr því að stjórnendur stæðu vel og fagmannlega að ferli uppsagna og málefnaleg sjónarmið lægju til grundvallar í einu og öllu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert