Atvinnuleysisbætur verði greiddar í 4 ár

Langtímuatvinnuleysi er vaxandi vandamál hér á landi.
Langtímuatvinnuleysi er vaxandi vandamál hér á landi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra, sagði á ársfundi ASÍ að hann væri að skoða að lengja þann tíma sem fólk gæti verið á atvinnuleysisbótum úr 3 árum í 4 ár. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, fagnaði þessari yfirlýsingu.

Lára Björnsdóttir, formaður Velferðarvaktarinnar, flutti erindi á ársfundinum og hún sagði afar brýnt að breyta reglum þannig að fólk sem væri atvinnulaust dytti ekki út af bótum eftir þrjú ár. Núgildandi reglur hefðu verið settar þegar hér var mjög lítið atvinnuleysi. Nú væri staðan breytt og það væri stór hópur fólks sem væri atvinnulaust í langan tíma. Hún sagðist vilja sjá þennan tíma fara úr þremur árum í fimm ár.

Lára fjallaði um starf Velferðarvaktarinnar sem sett var á stofn í ársbyrjun 2009. Hún sagði að í starfi hennar hefði komið í ljós að það skorti sárlega upplýsingar um félagslega- og efnahagslega stöðu fólks sem væri í vanda. Þetta leiddi til þess að þegar stjórnvöld væru að grípa til aðgerða þá væru þau ekki með nægilega traustan grunn undir aðgerðunum og vissu oft ekki hvaða afleiðingar þær hefðu. Þetta væri íslenska aðferðina, að gera eitthvað án þess að hafa almennilega vitneskju um árangur eða hvers eðlis vandinn væri.

Lára sagði að Velferðarvaktin væri núna að vinna að félagsvísum sem ættu að treysta betur grundvöll þeirra aðgerða sem stjórnvöld vildu grípa til.

Lára hvatti fulltrúa á ársfundi ASÍ að vera á verði gagnvart ákvörðunum sem teknar verða um húsaleigubætur í tengslum við gerð fjárlaga. Margt fátækt fólk væri í leiguhúsnæði og það mætti ekki eyðileggja kerfi húsaleigubóta. Það gæti haft mjög slæmar afleiðingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert