Erfið og sársaukafull ákvörðun

Helgi Þór Ingason, forstjóri Orkuveitunnar, á blaðamannafundi nú síðdegis.
Helgi Þór Ingason, forstjóri Orkuveitunnar, á blaðamannafundi nú síðdegis. mbl.is/Golli

Helgi Þór Ingason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að það hafi verið erfið og sársaukafull ákvörðun að segja upp 65 starfsmönnum í dag en staða fyrirtækisins bjóði aftur á móti ekki upp á annað.

Í hópnum eru 45 karlar og 20 konur. Uppsagnirnar ná til allrar starfseminnar, þau sem sagt er upp eru skrifstofufólk, stjórnendur, sérfræðingar, iðnaðarmenn og verkamenn. Fastráðnir starfsmenn OR hafa verið 565 og þeim fækkar um 11% með uppsögnunum. Fjöldi starfsmanna verður svipaður og hann var árið 2004 og stjórnendum fækkar um helming.

Á blaðamannafundi nú síðdegis rifjaði Helgi Þór upp, að á stjórnarfundi í lok ágúst hafi verið ákveðið að grípa til sparnaðarráðstafana. Hrósaði hann starfsfólki Orkuveitunnar fyrir æðruleysi á erfiðum tímum. Hann sagðist ekki geta svarað því hvort gripið yrði til frekari uppsagna á næsta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert