„Erfið stund fyrir marga“

Stefán Pálsson.
Stefán Pálsson. mbl.is/Sverrir

„Þetta var ekki skemmtilegur dagur í vinnunni,“ segir Stefán Pálsson, fyrrverandi starfsmaður og trúnaðarmaður starfsmanna hjá OR, í samtali við mbl.is, en 65 starfsmenn fyrirtækisins fengu uppsagnarbréf í dag. „Þetta var erfið stund fyrir marga.“

„Fólk sem var með áralanga vinnureynslu, sem hefur starfað hjá þessu fyrirtæki alla sína starfsævi, var að skilja þarna við vinnustaðinn sinn,“ segir Stefán og bendir á að OR hafi að mörgu leyti verið fjölskylduvinnustaður.

„Fyrir minn smekk er það dálítið hastarlegt þegar þú segir upp fólki klukkan eitt og svo vita menn það, að klukkan fjögur hætta aðgangskortin að virka.“

Hann segir að uppsagnirnar gildi frá og með 31. október og það sé ekki ætlast til þess að menn vinni út uppsagnarfrestinn. „Ekki einu sinni að menn vinni fram að mánaðamótum. Þér er sagt upp og þá ferðu bara út,“ segir hann.

„Maður hefur tengt þessa nálgun varðandi uppsagnir frekar við markaðsdrifnari fyrirtæki, banka eða eitthvað slíkt,“ segir Stefán sem undrast að þetta hafi verið gert í orkufyrirtæki sem sveitarfélag reki. 

Þar sem um hópuppsögn er að ræða þá hafa trúnaðarmenn fyrirtækisins fengið að fylgjast með ferlinu. „Það þýðir að þetta kom okkur ekki í jafn opna skjöldu og mörgum. En fjöldi fólks átti engan veginn von á þessu.“

Stefán telur að flestir af æðstu stjórnendum fyrirtækisins haldi starfinu.

„Það verður kannski einhver tilfærsla, og mögulega tapa einhverjir status. En toppstjórnendur fyrirtækisins, þeir starfa allir eða nálega allir. Þannig að þetta er þá frekar þeir sem eru við gólfið eða nær gólfinu. Það er nú svosem kannski gömul saga og ný í niðurskurði á Íslandi,“ segir Stefán, sem hefur starfað hjá OR í 12 ár.

Hann er þá ekki alveg búinn að segja skilið við fyrirtækið.  „Ég fæ að taka á móti skólahópum sem eru búnir að bóka heimsóknir hjá mér næstu daga.“ Stefán hefur séð um minjasafnið Rafheima, sem er fræðslusetur um rafmagnsmál fyrir skólabörn. „Nú er bara skellt þar í lás,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert