Í stríð við sannleikann

Fulltrúar WikiLeaks á blaðamannafundi í Lundúnum í dag.
Fulltrúar WikiLeaks á blaðamannafundi í Lundúnum í dag. Reuters

Kristinn Hrafnsson, einn af talsmönnum uppljóstrunarvefjarins Wikileaks, segir gagnrýni Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Pentagon, bandaríska varnarmálaráðuneytisins, á birtingu á leyniskjölum úr Íraksstríðinu á sandi byggða. „Er það ekki eitthvað mal í henni frá því í gærkvöldi? Hún var komin með viðbrögð við þessu áður en Wikileaks birti skýrslurnar.“

„Í raun og veru var Pentagon búið að reikna það út að við værum að leggja líf á fjórða hundrað íraskra uppljóstrara í hættu tveimur tímum eftir að Wikileaks birti þessar skýrslur. Þeir eru því ansi fljótir að lesa í gegnum 391.243 skýrslur þessir ágætu menn í Pentagon,“ segir Kristinn sem gefur því lítið fyrir gagnrýnina bandarískra stjórnvalda. Hann var einn þeirra sem kynnti skýrslurnar á blaðamannafundi í Lundúnum í dag.

„Það eru komin viðbrögð fyrirfram frá Hillary og Pentagon áður en menn áttuðu sig á því hvað væri þarna á ferðinni. Þau gerðu sér ekki grein fyrir því hvernig við matreiðum skýrslurnar. Það var mikið ferli hjá Wikileaks að taka út nöfn, nákvæmar staðsetningar og aðrar upplýsingar sem mögulega gætu leitt af sér einhver skaða. Þessi gagnrýni féll því um sjálfa sig,“ segir Kristinn sem býst ekki við frekari gagnrýni eða aðgerðum að hálfu bandarískra stjórnvalda.

„Þeir geta samt alveg bætt á sig einu stríði. Stríðinu við sannleikann. Það er nóg fyrir.“

Kristinn segir Wikileaks hafa gengið út frá því í upphafi að allar upplýsingar í skýrslunum væru skaðlegar og unnið út frá því þar til annað væri sannað.

 „Það var farið rafrænt í gegnum allar skýrslurnar. Verkefnið var nálgast þannig frá upphafi að ákveðið var að allt væri skaðlegt í öllum skýrslunum þangað til að búið væri að staðreyna og sanna að allt væri óskaðlegt. Þetta var gert með býsna sterku framlagi frá öflugum tölvuforriturum og fræðimönnum á ýmsum sviðum. Þannig var smám saman unnið út frá því að allt væri skaðlegt. Síðan voru orð, orðasambönd, skammstafanir og annað heimilað inn í grunninum.“

Kristinn segir skýrslurnar þó gefa glögga mynd af raunveruleika stríðsins í Írak. „Þær eru engu að síður læsilegar og gefa heildarmynd af veruleika styrjaldarinnar, mannfalli, hörmungum og öðrum atburðum. Hins vegar er þetta verkefni sem verður haldið áfram með. Að lokum verður það eitt útstrikað sem mögulega er skaðlegt. Þetta er ábyrg nálgun á því að vera viss um það að ekkert verði til skaða.“

Kristinn kveður Wikileaks búa yfir fleiri skjölum sem uppljóstra staðreyndir sem áður hafa ekki litið dagsins ljós. „Algerlega.“

Daniel Ellsberg, sem lak svonefndum Pentagonskjölum um Víetnamstríði til fjölmiðla …
Daniel Ellsberg, sem lak svonefndum Pentagonskjölum um Víetnamstríði til fjölmiðla árið 1971, talaði á blaðamannafundi WikiLeaks í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert