Enn óljóst með samskipti trúarhópa við skólabörn

Afgreiðslu tillögu meirihluta mannréttindaráðs Reykjavíkur um samskipti leik- og grunnskóla Reykjavíkurborgar og trúar- og lífskoðunarhópa var frestað á fundi ráðsins  sem var að ljúka. Boðað hefur verið til aukafundar í mannréttindaráði þann 3. nóvember næstkomandi vegna málsins.

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, segir tillögu mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar vega að rótum trúar, siðar og hefðar. Hann gerði málið að umræðuefni  í predikun hátíðarmessu í Hallgrímskirkju á sunnudag.

Drögin eru eftirfarandi:

„Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að ýmsum réttindamálum á vegum Reykjavíkurborgar. Réttindum innflytjenda hefur verið sinnt af alúð meðal annars í samstarfi við félagasamtök. Verulegur árangur hefur náðst á sviði kynjajafnréttis og réttindi samkynhneigðra hafa færst til hins betra með aukinni fræðslu. Þess hefur jafnframt verið gætt í starfi borgarinnar að fólki sé ekki  mismunað vegna efnahagsstöðu, stjórnmálaskoðanna eða fötlunar.

Mannréttindaráð Reykjavíkur telur að beina þurfi sjónum að einum málaflokki til viðbótar, en það er málaflokkur trúar- og lífsskoðana. Fjölmörg kvörtunarefni foreldra í leik- og grunnskólum eru vegna slíkra mála og margar kvartanir  hafa borist Mannréttindaskrifstofunni. Einnig hafa starfsmenn þessara stofnana óskað eftir skýrum leiðbeiningum borgarinnar. Það er hlutverk Reykjavíkurborgar að sjá til þess að réttur allra sé tryggður.

Árið 2007 sendi Leikskóla- og Menntasvið Reykjavíkur frá sér skýrslu um samstarf kirkju og skóla. Starfshópurinn sem vann skýrsluna setti fram ákveðnar niðurstöður. Þrátt fyrir að þær hafi legið fyrir í nokkur ár er enn verulegur ágreiningur um þessi mál sem fer vaxandi ár frá ári. Mannréttindaráð Reykjavíkur vill því beina eftirfarandi atriðum til sviða og stofnana borgarinnar:

*   Fermingarfræðsla Þjóðkirkjunnar og annarra trú- eða lífsskoðunarfélaga skal fara fram utan skólatíma. Undanfarin ár hefur skólastarf í öllum skólum farið úr skorðum í a.m.k. 2 daga á hverju hausti vegna þessa. Slík truflun á skólastarfi er óæskileg auk þess sem hætta er á að börn sem eftir verða telji sig útundan.

*   Heimsóknir starfsmanna trúar- og lífsskoðunarfélaga á frístundaheimili, í leik- og grunnskóla, auglýsingar eða kynningar á starfi þeirra í þessum stofnunum sem og dreifing á öðru trúarlegu efni er ekki heimil í starfi barna á vegum Reykjavíkurborgar. Þar með er talin dreifing trúarrita s.s. Nýja testamentis, Kóransins, auglýsingabæklinga og annars kynningarefnis.

*   Samþætting húsnæðis og starfsemi stofnana sem vinna með börn á vegum Reykjavíkurborgar og starfsemi trúar- og lífsskoðunarhópa verður ekki heimil á skólatíma.

*   Ferðir í bænahús trúar- og lífsskoðunarfélaga, bænahald, sálmasöngur og listsköpun í trúarlegum tilgangi er hluti af trúaruppeldi foreldra en ekki hlutverk starfsmanna borgarinnar. Slík starfsemi á ekki  heima í starfi með börnum í opinberum skólum. Kirkjuferðir skulu ekki farnar á starfstíma frístundaheimila og leik- og grunnskóla. Þess skal sérstaklega getið að ekki er verið að hrófla við öðrum jólaundirbúningi leik- og grunnskóla.

*   Því er beint til stofnana borgarinnar sem hafa starfandi áfallaráð að tryggt sé að fagaðilar komi að sálrænum áföllum í stað þess að leitað sé til trúar- eða lífsskoðunarfélaga.

Til grundvallar þessum ákvörðunum er sá vilji Reykjavíkurborgar að tryggja rétt foreldra til að ala börn sín í þeirri trúar- og lífsskoðun sem þeir kjósa  og tryggja þar með trúfrelsi þeirra. Foreldrar eiga að geta treyst því að börn þeirra verði ekki fyrir trúarlegri innrætingu í starfsemi borgarinnar. Með því vinna starfsmenn Reykjavíkurborgar samkvæmt mannréttindastefnu hennar og mannréttindasáttmála sem Ísland hefur undirgengist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert