Farið að lengja eftir ákærum

Atli Gíslason, þingmaður VG.
Atli Gíslason, þingmaður VG.

Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, segir að sig sé farið að lengja eftir því að sérstakur saksóknari gefi út ákærur á hendur stjórnendum gömlu bankanna. Segir Atli, í samtali við Bloomberg fréttastofuna, að sterkar vísbendingar séu um að lög hafi verið brotin innan bankanna á árinu 2008 í aðdraganda hrunsins. 

Atli var formaður þingmannanefndarinnar, sem lagði til að Alþingi höfðaði mál gegn fjórum fyrrverandi ráðherrum fyrir landsdómi. Alþingi samþykkti að höfða mál gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.

„Ég reiknaði með því að sérstakur saksóknari myndi gefa út fleiri ákærður," hefur Bloomberg eftir Atla. „Ég býst við að niðurstöður fáist á næstu mánuðum."

Fram kemur komið að um 60 mál eru til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Bloomberg hefur eftir Ólafi Þór Haukssyni, sem stýrir embættinu, að hann reikni fastlega með sakfellingu í þeim málum þar sem ákærur verði gefnar út. Ráða megi það út frá fordæmum og þeim hagsmunum sem eru í húfi.

Atli segir, að ef rannsókn mála vegna bankanna dragist lengur á langinn aukist hætta á að málin renni út í sandinn og einnig verði erfiðara að endurheimta fé, sem rann út úr bönkunum á fyrri hluta ársins 2008. 

Frétt Bloomberg

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert