Íslendingar verulega svartsýnir

Neytendur eru svartsýnir á ástandið í efnahagslífinu
Neytendur eru svartsýnir á ástandið í efnahagslífinu mbl.is/G. Rúnar

Svartsýni eykst verulega meðal Íslendinga ef marka má Væntingavísitölu Gallup fyrir októbermánuð.  Vísitalan lækkar um 35,7 stig milli mánaða og er einungis 32 stig nú. Þegar vísitalan mælist undir 100 stigum eru fleiri svartsýnir en bjartsýnir á horfur í íslensku efnahagslífi.

Íslenskir neytendur hafa ekki verið svartsýnni í rúmt ár, samkvæmt Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka. Aðeins einu sinni áður hefur vísitalan lækkað svona mikið milli mánaða en það var í bankahruninu í nóvember árið 2008.

„ Engan þarf að undra að vísitalan lækki á milli mánaða nú  enda hefur fátt annað verið í fréttum undanfarnar vikur en skuldavandi heimilanna og yfirvofandi uppsagnir opinberra starfsmanna en mikill niðurskurður er boðaður í fjárlögum sem lögð voru fram í byrjun þessa mánaðar. 

Þó kemur þessi mikla lækkun nú töluvert á óvart enda hefur vísitalan farið hækkandi undanfarið og stóð í síðasta mánuði í næsthæsta gildi sem hún hefur náð frá því fyrir hrun. 

Frá bankahruninu hefur vísitalan mælst að meðaltali rúm 40 stig og er því augljóslega mun svartara yfir landanum nú en undanfarin misseri og um verulegt bakslag að ræða á þróun hennar. Eins og kunnugt er mælir vístalan væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins og þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir," segir í Morgunkorni.

Lítil trú á bata í efnahagslífinu

Allar undirvísitölur lækka að þessu sinni og munar þar mestu minnkandi tiltrú fólks á að ástandið í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar muni batna á næstunni. Þannig lækka væntingar neytenda til næstu 6 mánaða um  52,7 stig og mælast nú 48,6 stig og er um verulegt bakslag að ræða enda hefur vísitalan mælst yfir 100 stigum síðustu þrjá mánuði.

Mat á núverandi ástandi lækkar um 10,2 stig og mælist nú 7 stig. Mat á atvinnuástandinu lækkar um 40,1 stig og mælist nú 32,5 stig og mat á efnahagslífinu um 34,9 stig og mælist nú 31,4 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert