Pólitískur skotgrafarhernaður á kostnað heimilanna

Í stað heildarsamstarfs um lausnir á erfiðri stöðu heimila og atvinnulífs á Alþingi hefur pólitískur skotgrafarhernaður því miður í of mörgum tilvikum orðið ofan á. Þetta kemur fram í nýrri skoðun Viðskiptaráðs Íslands.

Þá skortir ríkisstjórninni forystu og getu til að koma brýnum verkefnum í framkvæmd hjálparlaust.

Í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu mætti einnig of oft ætla að þar ráði persónulegir hagsmunir framar hagsmunum Íslendinganna sem veittu þeim umboð sitt. Þessi sýn birtist nær daglega í stjórnun landsmála og á vafalaust stóran þátt í þeirri tilvistarkreppu og skorti á trúverðugleika sem hrjáir þingið á þessari stundu, segir enn fremur í skoðun Viðskiptaráðs.

„Alþingi er nú í nokkurri tilvistarkreppu sem hefur og mun, að öllu óbreyttu, halda áfram að auka á efnahagslegu kreppuna sem hér ríkir. Mótmæli við þingsetningu nýs löggjafarþings, slakar traustsmælingar meðal almennings og neikvætt viðhorf fyrirtækjastjórnenda til efnahagsbata nú tveimur árum eftir efnahagshrunið hljóta að teljast skýr skilaboð um að nýja aðferðarfræði þurfi við úrlausn viðfangsefna Alþingis.

Stjórnvöld og stjórnarandstaða verða því nú að taka höndum saman og beina spjótum sínum að brýnustu verkefnunum – skuldavanda heimila og fyrirtækja. Bati í efnahagsmálum og lífskjörum byggir á skilvirkri lausn þessara mála. Virkt samráð við hagsmunaaðila, málefnaleg samskipti og hagnýt nálgun á viðfangsefnið mun styðja við þá forgangsröðun.

Skoðun Viðskiptaráðs í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert