Buðu Íslandi 3,1% af makrílkvóta

Makríll veiddist við bryggjur víða um land í sumar.
Makríll veiddist við bryggjur víða um land í sumar. mbl.is/Eggert

Norðmenn lögðu í morgun til, að hlutdeild Íslands í makrílveiðum á næsta ári yrði 3,1% og lýsti Evrópusambandið stuðningi við tillöguna. Þetta kom fram í ræðu Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegsráðherra, á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna, í dag og sagði hann að tillagan væri algerlega óraunhæf.

Viðræður Íslendinga, Norðmanna, Evrópusambandsins og Færeyinga hafa staðið yfir í Lundúnum frá því á þriðjudag og var ráðgert að þeim lyki í dag. Hlutur Íslands af heildarveiðunum á þessu ári er 17% og hafa veiðst um 122 þúsund tonn. Jón sagði um 60% aflans hefðu farið manneldis  en 40% hafi gengið til bræðslu.

Jón sagði, að afstaða Norðmanna í viðræðum um skiptingu makrílkvóta, sem nú standa yfir í Lundúnum, komi í sjálfu sér ekki á óvart enda hafi þeir ekki sýnt neinn sveigjanleika í samningaviðræðunum fram að þessu.

„Afstaða Evrópusambandsins vekur hins vegar furðu þar sem óformlegar viðræður höfðu farið fram milli Íslands og ESB á síðustu dögum um miklu hærri hlutdeild Íslands. Við tókum þátt í þessum viðræðum í góðri trú en svo virðist sem það hafi ekki verið gagnkvæmt.

Ljóst er að tillaga Noregs og ESB er með öllu óraunhæf þegar litið er til upplýsinga um stóraukna göngu makríls í íslensku lögsöguna á undanförnum árum og fæðunám hans þar. Til samanburðar er rétt að hafa í huga að hlutfall Íslands í heildarveiðunum í ár er 17%. Við Íslendingar eigum skýlausan rétt samkvæmt hafréttarsamningnum til veiða á makríl í okkar lögsögu sem ekki verður frá okkur tekinn meðan Ísland er fullvalda ríki. Við munum áfram beita okkur fyrir samkomulagi við hin strandríkin um heildarstjórnun makrílveiða á komandi árum sem tryggir ábyrgar og sjálfbærar veiðar," sagði Jón í ræðunni. 

Hann sagði, að miklar breytingar hefðu orðið í lífríki sjávar á undanförnum árum og þær muni halda áfram.

„Við hlýnun sjávar er næsta víst að hingað koma tegundir líkt og makríllinn sem áður voru á suðlægari slóðum. Þær verða hér í kosti og það sem þær nýta af fæðu í okkar landhelgi gagnast ekki að sama skapi öðrum tegundum. Þess vegna verða hagsmunir okkar vegna flökkustofnana enn meiri eftir því sem árin líða og reglan um hlutfallslega stöðugleika getur þá leikið okkur grátt en það er í anda hennar að ætla okkur Íslendingum 3,1% af heildaraflamarki í makríl," sagði Jón Bjarnason.

Ræða sjávarútvegsráðherra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert